Miklir og langvarandi skordýrafaraldrar á lúpínusvæðum hafa vakið athygli margra.  Nú er verið að vinna að rannsóknum á áhrifum þeirra á þróun lúpínubreiða.  Undanfarna viku hafa verið settar upp tilraunareitir vegna verkefnisins Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum.  Þar verður skordýrabeit á lúpínu; a) haldið niðri með skordýraeitri, b) aukin með því að dreifa ertuyglulirfum í reiti eða c) líkt eftir beit með klippingum.  Þessar tilraunir eru bornar saman við óbreytt ástand þar sem ekkert er hróflað við vistkerfinu.  Tilraunirnar eru á; a) Markarfljótsaurum þar sem ertuygla hefur herjað lengi, b) Hafnarmelum þar sem yglan hefur herjað í 3 sumur og c) Fossá í Hvalfirði þar sem aldrei hefur verið faraldur.  Þar sem beitarþungi er mestur verða 40-50 ertuyglulirfur á fermetra.  Þessum tilraunum verður haldið áfram í þrjú sumur til að mæla áhrif langvarandi beitar á þróun lúpínubreiðunnar og gróðurfars innan hennar.  Á hverju sumri verður vöxtur og lifun lúpínu mæld og tíðni og þekja annars gróðurs.  Við lok síðasta sumarsins verður lúpína í öllum reitum uppskorin og rætur grafnar upp til að mæla heildaráhrif á rætur og yfirvöxt.  Í verkefninu verða einnig rannsökuð áhrif ertuyglu á trjáplöntur, aflað frekari upplýsinga um lífsferil hennar og náttúrulega óvini og kuldaþol púpna/lirfna mælt.  Verkefnið er samstarfsverkefni Rannsóknastöðvar skógræktar, Landgræðslunnar og LBHÍ og hlaut styrk úr Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson nú í vor.  Fyrirhugað er að það verði doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur sem nú er verið að sækja um til Landbúnaðarháskóla Íslands.


Efri mynd: Halldór Sverrisson dreifir lirfum í tilraunareit á Markarfljótsaurum.

Neðri mynd: Ertuyglulirfur í kassa.  Lirfunum var safnað á Geitasandi og þeim síðan dreift í tilraunareiti.

frett_11082011_2


Texti og myndir: Guðmundur Halldórsson, Landgræðslunni.