Laugardaginn 4. júní var skrifað undir grenndarskógasamning um Björnslund í Norðlingaholti. Norðlingaskóli og Leikskólinn Rauðhóll hafa um nokkurra ára skeið notað lundinn í leik- og grunnskólastarfi. Eftir að byggt var skógarhús í lundinum hefur Rauðhóll verið daglega með hluta af  starfsemi sinni í skóginum. Þar una börnin sér vel í leik og nýta margt sem skógarumhverfið hefur upp á að bjóða í leik og námi.

Það er nýlunda að skólarnir, foreldrafélög þeirra og íbúasamtök geri sameiginlegan samning við Lesið í skóginn verkefnið og þar með samstarf við Umhverfissvið, Menntasvið, Menntavísindasvið HÍ og Skógrækt ríkisins um grenndaraskógarsamstarf.

Þegar byrjað var að nota hugtakið „grenndarskógur" yfir skóga til nota í skólastarfi var m.a. haft í huga aðkoma annarra aðila í hverfinu en skóla sem stutt gætu við skipulega nýtingu á skólaskóginum, því oftar en ekki eru grenndarskógarnir um leið ætlaðir almenningi til útivistar.

Með þessari undirskrift er í fyrsta skipti skapaðar forsendur til að hlúa að og nýta skóginn alhliða fyrir íbúa hverfisins og í skólastarfi. Með því fæst mikilvæg grenndargæsla og ábyrgð sem skilar sér vonandi í góðri umgengni og metnaði til að nýta skóginn á sem fjölbreyttastan hátt fyrir íbúa hverfisins. Á sama tíma var Norðlingaskóla slitið í sjötta sinn við hátíðlega athöfn.

Á myndinni hér að neðan má sjá fulltrúa þeirra aðila sem skrifuðu undir samninginn: (f.v.) Ómar Örn Jónsson, formaður foreldrafélags Rauðhóls, Valgerður K. Sverrrisdóttir, formaður foreldrafélags Norðlingaskóla, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og samgöngusviðs, Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri Lesið í skóginn, Sif Vígþórsdóttir, skólastjóri Norðlingaskóla, Guðrún Sólveig, leikskólastjóri Rauðhóls og Sigurður Rúnarsson Beck, formaður Íbúasamtaka Norðlingaholts.


frett_14062011_1


Texti: Ólafur Oddsson

Myndir: Ágúst Ólafsson