Kátir nemar FSU við gróðursetningu á Hafnarsandi. Ljósmynd: Ellert Arnar Marísson
Kátir nemar FSU við gróðursetningu á Hafnarsandi. Ljósmynd: Ellert Arnar Marísson

Um 200 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands unnu að því á degi jarðar 22. apríl að stinga aspargræðlingum í rakan sandinn. Áhersla var lögð á vandaða vinnu frekar en afköst og ánægjan skein úr andlitum flestra í hópnum. Stefnt er að því að allir nemendur skólans fái að gróðursetja á hverju vori framvegis.

Uppgræðslusjóður Ölfuss hefur veitt Skógræktinni styrk til verkefnisins sem nýttur er til að greiða ferðakostnað nemenda, nesti fyrir daginn og annan kostnað. Verið er að festa í sessi þá hefð hjá skólanum að gróðursetning sé fastur liður í vordagskrá nemendanna. Að þessu sinni komu um 200 nemendur til að taka til hendinni og tíu kennarar. Starfsfólk Skógræktarinnar sá um að stýra verkinu og leiðbeina undir forystu Ellerts Arnars Maríssonar verkefnisstjóra. Kennararnir fengu sérstaka leiðsögn til að geta haldið hópnum við efnið og tryggt góð vinnubrögð við gróðursetninguna.

Settir voru niður græðlingar af alaskaösp sem klipptir höfðu verið niður á Mógilsá  til beinnar stungu. Sú aðferð við asparrækt hentar vel að vori þar sem aðstæður eru góðar og góður raki í jörð. Þarna er unnið á svæði sem tekið hefur verið frá fyrir verkefni sem tengjast Uppgræðslusjóði Ölfuss.

Ellert segir að nemendur hafi að langmestu leyti staðið sig vel. Auðvitað séu aldrei allir fullir eldmóðs í svona stórum hópi en í heild hafi verið mikill áhugi og dugnaður í hópnum. Áherslan var lögð á vönduð vinnubrögð frekar en hraða og afköst og flestum nemendunum sem Ellert ræddi við þótti dagurinn skemmtilegur. Hann segir að nú sé rætt um áframhaldandi og aukið samstarf við FSU. Meðal annars er í ráði að efla enn fræðsluþáttinn. Fulltrúar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar gætu jafnvel komið í skólann áður en að gróðursetningunni kemur til að undirbúa, fræða og þjálfa enda segir Ellert vandasamt að messa yfir tvö hundruð manna hópi úti undir berum himni í ýmsum veðrum. Hjá FSU er vilji til þess að allir árgangar verði virkjaðir héðan í frá til að koma a.m.k. einu sinni á ári til að gróðursetja. Góð fræðsla skiptir sköpum um árangur við gróðursetningu sem þessa og er líka gott vegarnesti fyrir nemendurna út  í lífið.

Ellert Arnar Marísson tók nýlega við starfi verkfnastjóra samstarfsverkefna hjá Skógræktinni. Einkum er um að ræða samstarfsverkefni við Landgræðsluna og þar á bæ er líka kominn nýr verkefnastjóri, Magnús Þór Einarsson. Þeir starfa náið saman að ýmsum verkefnum sem stofnanirnar vinna að í sameiningu, til dæmis verkefnum á Hafnarsandi en líka Hekluskógaverkefninu, verkefnum á Hólasandi og víðar.