Fagráðstefna skógræktar 2014 verður á Selfossi í mars

Skipulagsmálin verða fyrirferðarmikil á fagráðstefnu skógræktar 2014 sem í þetta sinn verður haldin á Hótel Selfossi 12.-13. mars. Rúmur helmingur erindanna verður tengdur þema ráðstefnunnar að þessu sinni sem er skógur og skipulag. Meðal annars verður rætt um skógræktarstefnu sveitarfélgaa, aðalskipulag og mismunandi sjónarmið á nýtingu lands, skipulag skógræktar á Íslandi og spurninguna hvort nóg land sé til skógræktar og annars landbúnaðar svo eitthvað sé nefnt.

Af öðrum viðfangsefnum á ráðstefnunni má nefna að Þorbergur Hjalti Jónsson, skógfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá ræðir um skógrækt sem fjárfestingarmöguleika, fjallað verður um sjúkdóma á jólatrjám, innihald andoxunarefnis í greniberki á Íslandi brunavarnir í skógum, stefnumótun um ræktun götutrjáa, endurmenntun í skógrækt og fleira og fleira.

Suðurlandsskógar sjá um fagráðstefnuna að þessu sinni og taka við skráningum til 12. febrúar. Skráningar skulu sendar á netfangið harpadis@sudskogur.is.

Nánari upplýsingar má fá á vefsíðu Suðurlandsskóga á vefnum www.skogarbondi.is.

Smellið hér til að hlaða niður dagskrá ráðstefnunnar