Skógarhögg í Kielder-skógi í Norðimbralandi á Norður-Englandi. Wiki-mynd: The Boy that time forgot
Skógarhögg í Kielder-skógi í Norðimbralandi á Norður-Englandi. Wiki-mynd: The Boy that time forgot

Brexit og lækkandi pund hækkar verð á skógum og timbri

Skógur er besta fjárfestingin sem í boði er á breskum fjármálamarkaði um þessar mund­ir að mati breska blaðsins Financial Times. Timbursala getur gefið mikið í aðra hönd úr skógi sem kostar álíka mikið og lítil íbúð í Lundúnum. Meðan stöðnun ríkir og jafnvel hnignun á helstu fjárfestingarsviðum í Bretlandi bendir margt til þess að mikil arðsemi sé af skógi og hún muni vaxa á komandi árum.

Í grein eftir Tory Kingdon sem birtist á vef blaðsins 10. mars er spurt hvort skynsam­legt sé að festa fé sitt í skógi í stað fast­eigna. Vitnað er í átjándu aldar hugsuðinn og rithöfundinn Samuel Johnson sem talaði um þá ógnvænlegu bið sem væri frá fræi til timburs. Þessi tími sé þó biðarinnar virði því fjárfestingin beri ríkulegan ávöxt með tímanum.

Undanfarin þrjú ár hefur skógrækt verið fremsti fjárfestingarkosturinn í Bretlandi með 14,7 prósenta arðsemi að því er Financial Times hefur eftir fasteignamiðluninni Strutt & Parker. Arðvænlegra sé að festa fé sitt í skógi en í atvinnu­húsnæði, íbúðarhúsnæði, almennum hlutabréfum eða skuldabréfum. Blaðið hefur eftir sérfræðingum sem meta og selja fasteignir, meðal annars löggiltum skógarmatsmönnum, að fyrir marga sé skógur mjög spennandi fjárfestingar­kostur og slíkrar eignar sé líka hægt að njóta með margvíslegum hætti. Sé land keypt til að stunda þar skotveiði geti til dæmis verið að því fylgi líka nytjaskógur sem gefi arð. Fleira er nefnt eins og friðurinn og næðið sem skóginum fylgir.

Auðlindin sitkagreni

Í greininni er nefnt dæmi um fjárfesti sem keypti 300 hektara skógar í Skot­landi árið 2004. Fyrir skóginn greiddi hann andvirði tveggja herbergja íbúðar í vestanverðri Lundúnaborg. Nú, þrettán árum síðar, á hann víðáttumikla sitkagreniskóga syðst í Skotlandi og í Aberdeen-skíri.

Sitkagreni er aðaltegundin í nytjaskógrækt í Bretlandi enda viðurinn úr því eftir­sóttur og sitkagreni hraðvaxta án þess að gera of miklar kröfur um frjósemi lands. Sitkagreni­tré kvista sig vel upp og því verður viðurinn einsleitur og verðmætur. Í Bretlandi má upp­skera timbur úr 35-55 ára gömlum sitka­greni­skógum.

Degli eða dögglingsviður er önnur vinsæl nytjategund í Bretlandi og hefur vaxið þar frá því up úr 1827 þegar skoski grasafræðingurinn David Douglas kom með hana frá Ameríku. Þriðja tegundin er skógarfura sem er eini innlendi barrviðurinn sem ræktaður er í breskum nytjaskógum. Af skógarfuru er ekki hægt að uppskera timbur fyrr en um 70 ára aldur en tegundin laðar að sér fjölbreytilegt dýralíf sem gerir hana æskilega í hugum þeirra sem vilja ýta undir útivistargildi eða yndisskógrækt til viðbótar við beinharðar nytjar af skóginum.

Ekki sama hvar skógurinn vex

Hvar skógurinn vex skiptir líka miklu máli um verðmæti hans. Í Suður-Skotlandi og uppsveitum Wales eru skilyrði til skóg­ræktar­ góð en þar er líka stutt í sögunarmyllurnar sem hefur sitt að segja um hagkvæmni skógarins og þar með um verðmæti hans. Dýrt er að flytja timbur langar leiðir. Verð fyrir tonn af sambærilegu timbri úr skógi getur verið um 4.000 krónur nærri sögunarmyllu en allt niður í 2.500 krónur ef reikna þarf með flutningskostnaði til myllunnar úr fjarlægum héruðum.

Fjárfest fyrir næstu kynslóðir

Financial Times segir frá því í greininni að nú séu til sölu 340 hektarar nytjaskógar á Jock's Hill í Moray-héraði í Norður-Skotlandi og boðnar séu í þá rúmar 150 milljónir króna. Í grenndinni eru sögunarmillur í Aberdeen, Inverness og Huntly þannig að stutt er með timbrið á markaðinn. Til samanburðar bendir blaðið á sveitasetur með fjórum svefn­herbergjum sem sé til sölu í Sussex á Suður-Englandi ásamt 17 hektara skógi sem nytjaður sé til eldiviðar en eignin kosti samt nærri 540 milljónir króna. Einnig er nefndur löggiltur endurskoðandi, Norman Murray, sem keypti 400 hekt­ara skógrækt í Perthsire fyrir sex árum og talar um fjárfestingu til næstu kynslóða. Slíkri langtímafjárfestingu fylgi vissulega ákveðnar skyldur en eigandinn fái að njóta þess að sjá skóginn vaxa og dafna. Næstu kynslóðar bíði að njóta hagnaðarins til fulls. Auk teknanna af skóginum fylgja líka umtalsverð skattfríðindi fyrir afkomendur skógar­eig­and­ans. Tveimur árum eftir að nytjaskógur er keyptur fellur erfðafjárskattur að fullu niður vegna skógarins og ekki þarf að hafa áhyggjur af söluhagnaði meðan skógurinn stendur.

Brexit hækkar verð á skógum og timbri

Skógur er með öðrum orðum góð leið til að geyma verðmæti. Þessi verðmæti eru vel geymd meðan skógurinn stendur en skatt­ur fellur á tekjurnar þegar að viðar­söl­unni kemur. Sem langtímafjárfesting er ungur skógur betri en skógur sem nálgast upp­skeru og eftir því sem lengra er í loka­högg­ið má búast við að fleiri færi gefist til að selja skóginn standandi þegar verð á slíkum eignum er hátt. Fyrir nokkrum misserum voru felldir niður styrkir hins opinbera til endurræktunar skóga eftir lokahögg og nú velta sumir fyrir sér hvort hámarki sé náð á fasteignamarkaðnum með skóga. Aðrir benda á að nú sé Brexit í augsýn, útganga Breta úr Evrópu­sam­band­inu. Bretar hafi hingað til flutt inn 80% alls timburs sem notað er í landinu og því séu horfurnar frekar í þá átt að spurn eftir innlendum viði muni aukast. Þar með eykst verðmæti skóganna.

Jon Lambert, sem starfar hjá skógmiðlunar- og skógarmatsfyrirtækinu John Clegg & Co, segir í samtali við Financial Times að með lækkandi gengi breska pundsins hafi viðarsölumenn í öðrum löndum tekið að horfa í aðrar áttir en til Bretlands eftir viðskiptavinum. Framboðið á innfluttum viði hafi minnkað og þar með hækki verð á innlendum viði. Breska ríkisskógræktin, Forestry Commission, spáir því að eftir 2030 muni framboð á innlendu timbri minnka um 30 af hundraði, aðallega vegna þess að á dögum Nigels Lawsons sem fjármálaráðherra 1988 voru skattaívilnanir vegna nýskógræktar felldar niður. Þetta hefur leitt til þess að 20-30 ára skógur hefur hækkað í verði. Meira er nú einnig spurt um land sem hentar til ræktunar sitkagrenis og deglis. Allt ber því að sama brunni. Meðan stöðnun ríkir og jafnvel hnignun á helstu fjárfestingarsviðum í Bretlandi bendir ýmislegt til þess að skógur og skógrækt sé öllu betri fjárfestingarkostur en virst gæti í fljótu bragði.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson