Stormar orðnir sjaldgæfir í Reykjavík

Vart mæl­ast leng­ur storm­ar miðsvæðis í Reykja­vík vegna bygg­ing­ar nýrra húsa og auk­inn­ar gróður­sæld­ar. Í kring­um 1970 mæld­ust storm­ar álíka oft í Reykja­vík og á Kefla­vík­ur­flug­velli. Morgunblaðið fjallar um málið og ræðir við Harald Ólafsson, prófessor í Veðurfræði við Háskóla Íslands, sem var einn frummælenda á ráðstefnunni „Tímavélinni hans Jóns“ sem haldin var á Egilsstöðum í janúar.

Frétt blaðsins er á þessa leið:

Á síðustu árum og ára­tug­um hafa storm­ar reynst tíðir í Kefla­vík en fátítt er að vind­hraði fari yfir 20 metra á sek­úndu í Öskju­hlíð í höfuðborg­inni. Þetta er meðal þess sem fram kom í fyr­ir­lestri Har­ald­ar Ólafs­son­ar, prófess­ors við Há­skóla Íslands, á ráðstefnu á Eg­ils­stöðum um skóg­rækt á Íslandi.

„Þetta hef­ur haft gríðarleg áhrif á veðurfar á stóru svæði í Reykja­vík og þegar ég segi stóru svæði þá á ég við marga fer­kíló­metra þar sem byggð er einna þétt­ust í Reykja­vík,“ seg­ir Har­ald­ur. Hann seg­ir að ekki megi van­meta upp­bygg­ingu húsa og vöxt trjáa í þessu sam­hengi.

„Skjólið er víðtækt. Smám sam­an brotn­ar vind­ur­inn niður þegar hann lend­ir á veggj­um og trjá­gróðri,“ seg­ir Har­ald­ur og bæt­ir við. „Það er ljóst að Reykja­vík var á veður­sæl­um stað áður en borg­in byggðist og trén uxu og er borg­in núna lík­lega með veður­sæl­ustu stöðum á Íslandi.“

Leit­un að ann­arri eins borg

Veður­mæl­ing­ar Veður­stof­unn­ar fara fram á túni við hús stofn­un­ar­inn­ar á Bú­staðavegi. Hann bend­ir á að næsta ná­grenni vind­mæl­anna hafi lítið sem ekk­ert breyst en engu að síður mæl­ast storm­ar mun sjaldn­ar en fyrr. Það sé m.a. trjá­gróðri að þakka og ekki þurfi að fara lengra en í Öskju­hlíð til að sjá hvernig aðstæður hafa breyst.

Þar er mik­ill skóg­ur sem tek­ur á sig vind. Spurður hvort veðurfar sé ólíkt eft­ir hverf­um borg­ar­inn­ar þá seg­ir Har­ald­ur ljóst að svo sé. Leit­un sé að ann­arri borg þar sem bál­hvasst er í einu hverfi á meðan logn er í öðru. Eins og sak­ir standa séu hins veg­ar ekki mæli­tæki til staðar í öll­um hverf­um.

„Þess vegna er erfitt að full­yrða um ólíkt veðurfar milli hverfa,“ seg­ir Har­ald­ur. Hann bend­ir þó á að ef­laust séu all­marg­ir storm­ar á Seltjarn­ar­nesi, í Grafar­holti og Norðlinga­holti, svo dæmi séu nefnd.

„Nokkuð ljóst er að hvass­ara er þar en við Bú­staðaveg­inn. Til að geta kannað þessi mál til hlít­ar þarf að setja upp 20-30 mæla á Reykja­vík­ur­svæðinu,“ seg­ir Har­ald­ur. Hann seg­ir að eins og sak­ir standa séu nokkr­ir mæl­ar í notk­un hjá ólík­um stofn­un­um, t.a.m. eigi vega­gerðin mæli á Kjal­ar­nesi og til langs tíma mældi Vega­gerðin við Víf­ilsstaðaveg.

Veður­stof­an mæli m.a. á Veður­stof­unni, á Kjal­ar­nesi, við Reykja­vík­ur­flug­völl og við Korpu, svo dæmi séu nefnd. Mikið vanti þó á til að hægt sé að gera sér skýra mynd af breyti­leika veðurs á höfuðborg­ar­svæðinu.

Spurður hvort lögð hafi verið fram bón um kaup á fleiri mæl­um þá seg­ir Har­ald­ur svo ekki vera. „Ætli það endi ekki með því að ég geri það. Það þýðir ekk­ert að vera að væla um að ein­hver ann­ar eigi að gera hlut­ina,“ seg­ir Har­ald­ur í gam­an­söm­um tón.

Aldrei storm­ur í sunna­nátt

Hann seg­ir að fjalla­hring­ur­inn um­hverf­is höfuðborg­ar­svæðið hafi mik­il áhrif á veðurfar. „Ekki bara und­ir fjöll­un­um held­ur teygj­ast áhrif­in tals­vert langt. Ef við lít­um á Esj­una þá skýl­ir hún stór­um hluta byggðar­inn­ar í norðaustanátt, svo skýl­ir hún líka í norðanátt en ekki al­veg sömu hverf­um. Svo virðist Esj­an skýla Kjal­ar­nesi og Mos­fells­bæ gletti­lega vel í sunna­nátt­inni. Það eru t.a.m. aldrei storm­ar í sunna­nátt á Kjal­ar­nesi,“ seg­ir Har­ald­ur.