Sigurður Blöndal
Sigurður Blöndal

Myndir frá hálfrar aldar skógræktarstarfi

Vegleg gjöf barst Skógræktarinni  á dögunum. Var það forláta eikarskápur og í honum skógamynda­safn Sigurðar heitins Blöndals, fyrrverandi skóg­ræktarstjóra. Auk þess bárust sex stórir kassar sem einnig voru fullir af skógamyndum Sigurðar. Það voru börn Sigurðar og Guðrúnar Sigurðar­dóttur, sem nú er einnig látin, þau Benedikt, Sig­rún og Sigurður Björn, sem færðu Skóg­rækt­inni myndasafn föður síns.

Það er gríðarlega verðmætt fyrir sögu skógræktar í landinu að þessar myndir verði varðveittar hjá Skógræktinni, þar sem fyrir eru myndir frá for­ver­um Sigurðar, þeim Christian Flensborg,  Agner F. Kofoed-Hansen og Hákoni Bjarnasyni. Saman ná þessi myndasöfn yfir fyrstu öld skógræktar á Ís­landi og rúmlega það. Sigurður var einstaklega duglegur ljósmyndari og nær safn hans yfir um helminginn af þeim tíma. Myndir Sigurðar eru allar vel merktar með upplýsingum um efni, stað og stund, sem gefur þeim enn meira sögulegt gildi en ella.

Ljósmyndir dofna og aflitast með tímanum, ekki síst litskyggnur, og því er nauðsynlegt að færa þær yfir á rafrænt form og jafnframt að skrá þær þannig að þær verði aðgengilegar. Búið er að skanna myndir Flensborgs, Kofoeds og Hákonar en eftir er að laga sumar þeirra og skrá. Það stóra verk að skanna og skrá myndir Sigurðar er svo fram undan. Þegar upp er staðið verður saga skógræktar vel skráð í myndum sem verða aðgengilegar á netinu.

Skógræktin færir þeim systkinunum Benedikt, Sigrúnu og Sigurði Birni Blöndal innilegar þakkir fyrir góða gjöf.

Kassar fullir af ljósmyndum Sigurðar komnir í hús á aðalskrifstofu Skógræktarinnar.
Gjöfin er verðmæt og með tilkomu hennar er til gott ljósmyndasafn frá fyrstu öld
skógræktar á Íslandi því forverar Sigurðar tóku allir mikið af ljósmyndum.

Sigurður tók mjög mikið af myndum og því verðmætari eru þær að hann skráði þær
allar og merkti vandlega. Hér sést ljósmyndaskápur hans fullur af litskyggnum
sem nauðsynlegt er að skanna til að tryggja varðveislu þeirra.

Texti og myndir af ljósmyndasafni Sigurðar: Þröstur Eysteinsson