Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Alla…
Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Allar starfstöðvar Skógræktarinnar hafa nú tekið fyrsta skrefið.

Nær allar starfstöðvar Skógræktarinnar hafa nú tekið fyrsta græna skrefið í ríkisrekstri. Umhverfismarkmið stofnunarinnar eru tvíþætt og lúta að sjálfbærri skógrækt í sátt við umhverfið og daglegri starfsemi á skrifstofum og starfstöðvum.

Skógræktin hefur sett sér umhverfisstefnu sem á að vera liður í daglegu starfi stofnunarinnar og skal taka tillit til hennar í öllu daglegu starfi og allri áætlanagerð. Markmið umhverfisstefnu Skógræktarinnar einkum tvíþætt. Annars vegar er að skógrækt sé sjálfbær og í sátt við umhverfið en hins vegar eiga skrifstofur og starfstöðvar stofnunarinnar að starfa samkvæmt umhverfismarkmiðum.

Fyrir ríkisstofnun er eðlilegast að fylgja þeim markmiðum og verkefnum sem yfirvöld koma í kring og hefur Skógræktin ákveðið að hlíta kalli Stjórnarráðsins og taka svokölluð „græn skref í ríkisrekstri“ sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með. Eins og segir á vef Stjórnarráðsins snúast græn skref í ríkisrekstri um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Í grænu skrefunum eru tilgreindar aðgerðir sem snerta sex umhverfisþætti og eru þær innleiddar í fimm áföngum. Fimmti áfanginn sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun.

Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi og draga úr rekstrarkostnaði. Þegar stofnun tekur fyrsta græna skrefið hlýtur hún viðurkenningu á áfanganum og svo sérstaka staðfestingu á hverju skrefi sem tekið er eftir það.

Markmið grænna skrefa í ríkisrekstri er að gera starfsemi ríkisins umhverfisvænni, auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra, draga úr rekstrarkostnaði ríkisstofnana, innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar og að gera aðgerðir stofnana í umhverfismálum sýnilegar.

Nánar má kynna sér græn skref í ríkisrekstri á sérstökum vef verkefnisins, www.graenskref.is

Á síðustu misserum hefur verið unnið að því að innleiða græn skref í ríkisrekstri hjá Skógræktinni og hafa nú nær allar starfstöðvar stofnunarinnar hlotið viðurkenningu frá Umhverfisstofnun. Aðeins vantar herslumuninn hjá þeim sem eftir eru. Alls eru formlegar starfstöðvar tólf en að auki eru starfsmenn á nokkrum stöðum til viðbótar með vinnuaðstöðu heima við. Allt er tekið með í grænu skrefunum. Að sjálfsögðu gilda markmið stofnunarinnar um allt starf hennar, hvar sem það fer fram. Á meðfylgjandi myndum má sjá starfsfólk á nokkrum starfstöðvum með viðurkenningu Umhverfisstofnunar fyrir fyrsta græna skrefið í ríkisrekstri.

Umhverfismarkmið Skógræktarinnar

Stór hluti af starfsemi Skógræktarinnar fer fram utan skrifstofa og því þarf stofnunin að setja sér viðbótarmarkmið í umhverfismálum. Hin tvíþættu markmið stofnunarinnar sem áður voru nefnd eru á þessa leið:

Sjálfbær skógrækt í sátt við umhverfið

Efla skal skógrækt á Íslandi  í þeim tilgangi að skapa skógarauðlind, auka lífframleiðslu og fjölbreytni, binda kolefni, auka viðnám gegn gróðureyðingu, efla og vernda vatnsgæði og efla útivist í skógum landsins. Taka skal tillit til  landslagsþátta og verndarsjónarmiða. Alla verkþætti og ferla sem tengjast framkvæmdum skal skoða sérstaklega með umhverfismarkmið í huga.

  1. Vélar og tæki sem notuð eru í skógum Skógræktarinnar skulu vera af  viðurkenndri gerð og ávallt vel við haldið til að koma í veg fyrir leka á olíum og vökvum.
  2. Olíur á mótorsagir skulu vera umhverfisvænar
  3. Huga skal að orkunotkun vélknúinna tækja sem tengjast framkvæmd við skógrækt.
  4. Meðferð áburðar og ræktunarefna skal vera vistvæn, meðvituð og til fyrirmyndar. Geymsla og notkun eiturefna sé í samræmi við gildandi reglur.
  5. Frágangur á framkvæmdastöðum (skógum og skógræktarstöðum) skal vera  til fyrirmyndar og Skógræktinni til sóma.
  6. Hreinsa skal upp alla ruslahauga, ónýtar girðingar o.þ.h. í þjóðskógunum og koma í endurvinnslu eða förgun á viðeigandi hátt.
  7. Úrgangsolía skal flutt á sérstaka móttökustaði.

Dagleg starfsemi á skrifstofum og starfstöðvum

  1. Umhverfisstefnu starfstöðvanna skal miða við að flokkun sorps sé í samræmi við bestu markmið sveitarfélags á hverjum stað. Leitast verði við að minnka úrgang eins og kostur er.
  2. Ávallt skal flokka pappír og koma honum á móttökustaði til endurvinnslu.
  3. Ónýtum raftækjum, tölvubúnaði, glerílátum, plasti og tómum prenthylkjum skal koma á móttökustaði til endurvinnslu.
  4. Keyptar skulu umhverfismerktar vörur svo sem  pappír og prenthylki þar sem því verður við komið með hliðsjón af  gæðum og kostnaði.
  5. Ónýtum rafhlöðum verði safnað saman og þær sendar i spilliefnamóttöku.
  6. Dósum og endurvinnanlegum drykkjarumbúðum sem falla til  á starfstöðinni skal komið til endurvinnslu.
  7. Forðast  skal að nota vörur sem innihalda lífræn leysiefni ef kostur er á öðru.
  8. Koma skal upp aðstöðu fyrir jarðvegsgerð (moltukössum) á lífrænum úrgangi eða skila lífrænum úrgangi í safnkassa bæjarfélags.

Merkingar fyrir sorpflokkunarílát á starfstöðvum

Texti: Pétur Halldórsson