Troðfullur salur nemenda og kennara Menntaskólans á Ísafirði og Háskólaseturs Vestfjarða fékk kynnin…
Troðfullur salur nemenda og kennara Menntaskólans á Ísafirði og Háskólaseturs Vestfjarða fékk kynningu á starfsemi Skógræktarinnar og Íslenskrar skógarúttektar á Vísindadögum MÍ. Ljósmynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Skógrækt var í gær kynnt troðfullum sal þátttakenda á Vísindadögum Menntaskólans á Ísafirði sem nú standa yfir. Fjallað var meðal annars almennt um Skógræktina, skipulag hennar og fjölbreytt verkefni stofnunarinnar en einnig um Íslenska skógarúttekt.

Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi segir frá hlutverki og verkefnum Íslenskrar skógarúttektar. Ljósmynd: Sigríður Júlía BrynleifsdóttirÁ Vísindadögum fellur hefðbundin kennsla niður í skólanum og nemendur kynna margvísleg verkefni samnemendum sínum og starfsfólki. Að þessu sinni er jafnframt á dagskránni fjölbreytt kynning á rannsóknarsamfélaginu á Vestfjörðum sem starfstöð Skógræktarinnar vestra tilheyrir. 

Starfsmenn Skógræktarinnar í starfstöðinni á Ísafirði eru tveir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs, og Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi. Sigríður Júlía hélt erindi þar sem hún sagði frá Skógræktinni, skipulagi stofnunarinnar og fjölbreyttum verkefnum hennar en Kristján hélt erindi um þær reglulegu skógmælingar, gagnasöfnun og miðlun upplýsinga sem fram fer í verkefninu Íslenskri skógarúttekt.

Salur Menntaskólans á Ísafirði var troðfullur enda voru þar auk dagskólanemenda starfsmenn skólans ásamt nemendum og starfsfólki Háskólaseturs Vestfjarða og fleirum. Við lok Vísindadaga MÍ eru veitt verðlaun fyrir kynningar en einnig fyrir vísindagetraun sem er í gangi þessa daga.

Texti: Pétur Halldórsson