Birkiplanta og lambagras á eyðisandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Birkiplanta og lambagras á eyðisandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Umsagnir Skógræktarinnar og Landgræðslunnar sem sendar hafa verið vegna undirbúnings að stofnun miðhálendisþjóðgarðs ber ekki að túlka sem svo að fyrirhugaður þjóðgarður sé ávísun á örfoka land. Í athugasemdum hafa stofnanirnar komið á framfæri tilteknum atriðum sem eiga að geta nýst nefnd um miðhálendisþjóðgarð í vinnu hennar.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag,19. ágúst, er að finna fyrirsögnina: „Nýr þjóðgarður ávísun á örfoka land“. Þar er fjallað um umsögn sem Skógræktin sendi frá sér nýverið um tillögur að mörkum nýs miðhálendisþjóðgarðs og birtist á samráðsgátt stjórnvalda. Undirfyrirsögn umræddrar fréttar Fréttablaðsins er á þessa leið: „Forsvarsmenn Landgræðslunnar og Skógræktarinnar telja hugmyndir umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð vernda örfoka land fyrir uppgræðslu“.

Óskað var eftir umsögnum um þetta mál á samráðsgáttinni snemma á þessu ári með lokafresti 30. apríl og svo aftur nú í sumar með lokafresti 13. ágúst. Auðvelt er að túlka orðalag í bæði fyrirsögn og undirfyrirsögn Fréttablaðsins sem svo að bæði Landgræðslan og Skógræktin hafi sent inn umsögn nú í sumar en svo var ekki. Hið rétta er að í umsögn sem Skógræktin sendi frá sér fyrr í þessum mánuði er vitnað í umsögn Landgræðslunnar frá því í apríl þar sem fram komu sjónarmið um að víða á miðhálendi Íslands væri þörf á landgræðsluaðgerðum.

Hvorki Landgræðslan né Skógræktin hafa í umsögnum þessum lagst gegn miðhálendisþjóðgarði. Því er það frjálsleg túlkun á umsögnum þeirra að þær telji þjóðgarð vera „ávísun á örfoka land“ svo aftur sé vísað til orðalags í fyrirsögn Fréttablaðsins. Örfoka land er þarna fyrir. Umsagnir stofnananna beggja snúa að því að koma tilteknum atriðum á framfæri sem vonast er til að nefndin um miðhálendisþjóðgarð geti nýtt í ákvarðanatöku sinni. Af hálfu Landgræðslunnar eru þetta atriði sem snerta almenna verndarstefnu en í tilviki Skógræktarinnar atriði sem snerta mörk fyrirhugaðs þjóðgarðs. Lesa má umsagnirnar á samráðsgátt stjórnvalda sem tenglar eru á hér að neðan.

Texti: Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson