Jón Loftsson, skógræktarstjóri, og Jón Egill Egilsson, sendiherra, kveiktu ljósin á íslenska jólatrénu á sendiráðslóð Norðurlandanna í Berlín í Þýskalandi á fullveldisdegi Íslendinga, 1. desember.

Tréð er fjallaþinur (Abies lasiocarpa) sem felldur var í Hallormsstaðaskógi þann 17. nóvember sl. en það var gróðursett í Mörkinni á Hallormsstað árið 1937. Það var flutt með skipi til Þýskalands, en þetta er lengsta leið sem íslenskt jólatré hefur verið flutt á áfangastað. Raunar er þetta einnig fyrsta þekkta dæmið um jólatré sem útflutningsvöru Íslendinga.

Norðurlöndin skiptast á um að senda jólatré til að prýða sendiráðslóðina og nú var í fyrsta sinn komið að Íslandi. Því fór vel á því að það félli í hlut skógræktarstjóra Íslands að kveikja ljósin á trénu. Eftir fimm ár verður aftur íslenskt jólatré á sendiráðslóð Norðurlandanna í Berlín.