Hluti forsíðu 1. tölublaðs Skógræktarritsins 2019.
Hluti forsíðu 1. tölublaðs Skógræktarritsins 2019.

Áhrif lerkiskógræktar á rýru landbúnaðarlandi og landnám ýmissa plantna, sveppa og dýra í fóstri lerkisins er umfjöllunarefni greinar eftir Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem er meðal efnis í fyrra tölublaði Skógræktarritsins sem nýlega kom út. Fjöldi annarra fróðlegra greina er í ritinu.

Í grein sinni lýsir Þröstur sögu landnotkunar á jörðinni Höfða á Héraði þar sem hann er búsettur og hefur stundað skógrækt ásamt fjölskyldunni í rúman aldarfjórðung. Þar var skóglaust land og þjakað af landnotkun genginna alda en nú vex á Höfða gróskumikill skógur með auðugum botngróðri og fuglalífi. Fróðlegt er að lesa um hvernig lerkið hefur örvað framvindu annarra lífvera og gert tegundum eins og villtum jarðarberjum og hrútaberjum kleift að dafna og skógræktandanum að rækta ýmsar trjátegundir sem ella hefðu ekki fengið þrifist á svæðinu, svo sem eik.

Í Skógræktarritinu skrifar líka Brynjólfur Gíslason um árangursríkt útikennsluverkefni á Tálknafirði, Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar fjallar um vöxt alaskaaspar á Sandlækjamýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með áhugaverðum upplýsingum um hvenær öspin byrjar að vaxa á vorin, hversu lengi hún vex og fleira. Molta sem áburður á lerki og birki á Hólasandi er heiti greinar eftir Brynjar Skúlason, Pétur Halldórsson og Daða Lange Friðriksson og fjallar um tilraunir sem þar hafa verið í gangi frá árinu 2015 í samvinnu við Moltu ehf. í Eyjafirði. Meðal niðurstaðna er að notkun moltu gæti verið gagnleg aðferð til að koma upp gróðureyjum birkis og flýta fyrir fræmyndun og útbreiðslu þess.

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur talar um endurheimt Eiðaskógar á Héraði í Skógræktarritinu, Þorsteinn Tómasson um kynbætur birkis og ræktun rauðblaða yrkja og svo er í ritinu grein eftir Ragnhildi Freysteinsdóttur um konur í skógrækt og nýtt félag, Skógarkonur, sem stofnað hefur verið hérlendis. Þetta nýja félag er stofnað með sambærileg félög annars staðar á Norðurlöndunum að fyrirmynd og tekur þátt í norrænu samstarfi þessara félaga. Markmið hins nýstofnaða félags er þátttaka kvenna á öllum aldri innan allra sviða skógræktar, með áherslu á samheldni og samvinnu.

Einar Þorleifsson skrifar fróðlega grein um svartþröst í Skógræktarritið og þar er að finna yfirlit um skógræktarárið 2017 með ýmsu talnaefni. Fleira mætti nefna af efni í þessu tölublaði en sjón er sögu ríkari og vert fyrir allt skógræktarfólk að gerast áskrifendur að þessu riti sem er eina tímaritið um skógrækt sem kemur út reglulega á Íslandi. Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og áhugasamir geta óskað eftir áskrift með því að senda skeyti á netfangið skog@skog.is eða með því að hringja í síma 551 8150.

Texti: Pétur Halldórsson