Viðarumgjarðirnar fást í nokkrum viðartegundum. Mynd: Ernir.
Viðarumgjarðirnar fást í nokkrum viðartegundum. Mynd: Ernir.

Notar líka bæði úr og penna úr tré

Sjónfræðingurinn og skógræktaráhugamaðurinn Rüdiger Þór Seidenfaden hefur nú hafið sölu á gleraugnaumgjörðum úr tré frá ítalska fyrirtækinu Woodone Eyewear. Umgerðirnar eru fisléttar og níðsterkar, gott dæmi um þær miklu framfarir sem hafa orðið í framleiðslu ýmissa vara úr timbri og öðrum trjáafurðum.

Skogur.is rakst á þessi gleraugu í blaðaauglýsingu frá Gleraugnasölunni á Laugavegi í Reykjavík sem Rüdiger Þór á og rekur. Hann er mikill áhugamaður um ýmsa hluti úr tré og segist til dæmis eiga bæði úr og penna úr viði. Gleraugnaumgjarðirnar eru framleiddar úr mörgum samlímdum viðarlögum og eru bæði mjög léttar, níðsterkar og sveigjanlegar. Þar sem viður er endurnýjanlegt hráefni og framleiðslu úr viði fylgir mun minna umhverfisálag en framleiðslu úr öðrum hráefnum má slá því föstu að viðarumgjarðir séu líka léttbærari fyrir náttúru og umhverfi en aðrar gleraugnaumgjarðir.

Fram kemur að öllum tréumgjörðunum fylgi hulstur úr ösp sem séu ótrúlega létt líkt og umgjarðirnar. Rüdiger Þór Seidenfaden er ekki bara áhugamaður um gleraugnaumgjarðir og ýmsa aðra hluti úr tré heldur hefur hann mikla ástríðu fyrir skógrækt. Þegar hann flutti til Íslands fyrir margt löngu segist hann hafa séð að hér vantaði tré. Þá hafi hann fengið mikinn áhuga á skógrækt og nú hafi hann ræktað tré í Fljótshlíð í 25 ár. Þar sem nú er skógi vaxið land hafi áður verið árfarvegur Markarfljóts.

Texti: Pétur Halldórsson