New York Times tíundar fimm leiðir og tekur Ísland sem dæmi

Á vef bandaríska stórblaðsins New York Times er spurt hvort virkilega sé hægt að skófla kolefni úr lofthjúpn­um. Fimm leiðir eru tíundaðar og ein af þeim er skógrækt. Hver skyldi vera raunhæfust?

Skógrækt

Fyrsta leiðin sem nefnd er í greininni er skógrækt. Tré dragi koltvísýring með náttúrlegum hætti úr andrúms­loftinu og bindi í vefjum sínum þegar þau vaxa. Skógar heimsins bindi milli einn og tvo milljarða tonna kolefnis árlega og geri því sitt til að mæta þeim tíu milljörðum tonna sem menn­irnir losa á hverju ári. En skóg­rækt tekur tíma eins og Íslendingar vita vel. Þar er vísað í ágæta um­fjöll­un blaðsins á liðnu hausti sem fjallað var um hér á skogur.is. Eins og er stendur mannkynið sig betur í því að höggva niður tré en að rækta ný.

Mala grjót

Rætt er um að flýta megi fyrir veðrun með því að mala grjót enda binda sumar bergtegundir kolefni þegar þær brotna niður og sameindir þeirra bindast kolefni úr andrúmsloftinu. Bent hefur verið á að nota mætti ólivín sem er frumsteind í basísku storkubergi, fínmala hana og dreifa yfir jörðina, til dæmis með fram ströndum. En þetta er mikið verk og orkufrekt. Kolefnisbindingin yrði líka mjög hæg, þrátt fyrir allt.

Brenna plöntuefni og fanga koltvísýringinn

Með því að rækta plöntur og brenna lífmassan verður til hringrás þar sem ekki bætist við kolefnið í andrúmsloftinu. Brunaorkuna má nýta sem orkugjafa. Þessi aðferð kallast BECCS á alþjóðamáli, skammstöfun úr enska hugtakinu „bioenergy with carbon capture and storage“. Bent er á að fá verkefni á þessu sviði séu í gangi og öðrum hafi verið hætt. Vafamál er hvort þessi aðferð leiðir af sér nettóbindingu ef kolefnislosun vegna ræktunar og uppskeru er tekin með í reikninginn.

Dreifa járni í sjóinn

Fræðilega má auka kolefnisupptöku þörunga í sjó með því að bera á sjóinn járnagnir eða önnur áburðarefni. Þörungarnir vaxa, drepast og falla til botns þar sem kolefnið geymist. Ekki hefur þó þótt góð latína að ausa efnum í sjóinn og óvíst mun vera um árangur.

Sjúga koltvísýring úr loftinu

Talsverðar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum möguleika og tæki þróuð til þess arna. Eitt er þó að ná koltvísýringi úr útblæstri verksmiðja þar sem hlutfall þess er 5-10 prósent. Annað er að ná koltvísýringnum úr andrúmsloftinu þar sem hlutfallið er ekki nema um 0,04%. Til að ná einhverju sem máli skipti þyrfti að dæla ógnarmagni af lofti gegnum tækin og halda þeim gangandi áratugum saman.

Lesendur geta svo velt fyrir sér hvaða leið þeir myndu velja. Eitt er þó víst. Við vitum að skógurinn bindur koltvísýring. Ef við notum afurðir skógarins í stað afurða sem valda gróðurhúsaáhrifum er ávinningurinn tvöfaldur. Ef við ræktum skóginn á landi sem losar kolefni við rotnun, s.s. íslenskar auðnir eða framræst land er ávinningurinn orðinn þrefaldur.

Texti: Pétur Halldórsson