Bændablaðið spyr hvort ekki sé nær að leggja aukið fé til landgræðslu og skógræktar en greiða sektir…
Bændablaðið spyr hvort ekki sé nær að leggja aukið fé til landgræðslu og skógræktar en greiða sektir vegna vanefnda á alþjóðaskuldbindingum um loftslagsmál.

„Staða mengunarmála á Íslandi í dag  hlýtur að vekja spurningu um orð umhverfisráðherra á Íslandi sem er tilbúinn til að borga milljónatugi ef ekki hundruð milljóna í sektir til útlanda ef landið stendur ekki við CO2 losunarmark Parísarsamkomulagsins. Af hverju beitir ráðuneytið sér ekki frekar fyrir því að nýta þá peninga til uppgræðslu og skógræktar á Íslandi?“

Þetta skrifar Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins, í áhugaverðri fréttaskýringu um umhverfismál í Kína. Þar í landi sé háð stríð gegn mengun sem sé sagt munu breyta heiminum.

Í fréttaskýringunni er sagt frá risastökki sem Kínverjar séu að taka í umhverfismálum. Nýta egig gróður tila ð vinna kolefni úr loftinu og bæta loftið í borgunum. Vísað er í rannsóknir sem bent hafi til þess að draga mætti úr loftmengun í borgun um allt að 30% með ræktun gróðurs og gróðurinn hreinsi líka ryk úr loftinu. Meðal annars séu uppi hugmyndir um „frumskógarborg“ í Kína þar sem allt verði þakið gróðri, líka byggingar, og víða um heim sé þróunin í átt til visthæfari hönnun þéttbýlis.

Kínverjar hafa búið við geysihraða efnahagsþróun í fjörutíu ár og ein afleiðingin er mikil mengun sem Kínverjar berjast nú við af jafnmiklum krafti og lagður hefur verið í efnahagsuppbygginguna. Fram kemur í fréttaskýringu Bændablaðsins að stjórnvöld í Kína ætli að leggja mikið aukið fé til baráttunnar gegn mengun. Kínverjar séu stærstir í rafbílabransanum, verð á sólarsellum fari ört lækkandi og tækniþróun til nýtingar á hreinni orku sé orðið meiri háttar drifafl í peningakerfi heimsins.

Sólar- og vindorkutækni er þó ekki talin geta fullnægt orkuþörf Kínverja á næstunni. Þess vegna leita þeir nú að olíu og gasi í Nepal sem er skömminni skárri en kolin. Vaxandi eftirlit er með þeim sem menga, til dæmis kolaorkuverum og þegar hefur kolaorkuverum verið lokað sem ekki fullnægja mengunarkröfum.

Nánar má lesa um þetta í fréttaskýringu Harðar Kristjánssonar ritstjóra í Bændablaðinu. Ástæða er til þess að taka undir þau orð hans að affarasælla sé fyrir Íslendinga að leggja stóraukið fé til landgræðslu og skógræktar innan lands en standa frammi fyrir sektargreiðslum sem vofa yfir ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar í alþjóðlegum loftslagssamningum.

Texti: Pétur Halldórsson