Morgunblaðið, fimmtudaginn 4. desember, 2003 - Miðopna

Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar

SPÁ fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi byggist á því að þær ráðstafanir sem ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum 5. mars árið 2002 að grípa til beri tilætlaðan árangur.

SPÁ fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi byggist á því að þær ráðstafanir sem ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum 5. mars árið 2002 að grípa til beri tilætlaðan árangur. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða við að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni fyrir tímabilið 2008-2012.

* Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum, sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota.

* Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.

* Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.

* Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.

* Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.

* Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.

* Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.