Önnur útgáfa bæklings

Skógrækt ríkisins og Skipulagsstofnun hafa lokið endurskoðun á leiðbeiningum um skógrækt í skipulagi sveitarfélaga sem fyrst komu út árið 2008. Nýja útgáfan tekur mið af þeim breytingum sem átt hafa sér stað með breytingum á lögum og reglugerðum sem snerta umhverfis- og skipulagsmál skógræktar. Fyrst um sinn verður útgáfan aðeins netútgáfa, aðgengileg á heimasíðum Skógræktar ríkisins og Skipulagsstofnunar.

Bæklingurinn heitir Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, II. útgáfa 2014 Í honum er farið yfir hvernig stefna hins opinbera birtist að nokkru í skógræktarlögum en svo móti ríki og sveitarfélög sér frekari stefnu á hverjum tíma. Fjallað er um samráð sem nauðsynlegt sé að viðhafa þegar skógræktarskipulag er unnið og umhverfismat skipulagsáætlana sem Skipulagsstofnun hefur gert leiðbeiningar um. Í bæklingnum er kafli um landskipulagsstefnu sem á að verða leiðarljós um nýtingu lands og landgæða sem tryggi heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana. Þá er rætt um skógrækt í svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi en einnig farið yfir hvernig standa skuli að ræktunaráætlunum, umsóknum um framkvæmdaleyfi og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Enn fremur er fjallað um hvað hafa beri í huga þegar ryðja þarf skóg.

Í viðauka bæklingsins er að finna helstu lög, reglugerðir og leiðbeiningar sem snúa að skógrækt eða hafa takmarkandi áhrif á hvar heimilt er að stunda skógrækt.

Nánari upplýsingar um skipulagsmál skógræktar má fá hjá Hallgrími Indriðasyni, hallgrimur@skogur.is, sími 470-2012.

Texti: Pétur Halldórsson og Hallgrímur Indriðason