Úr íslenskum skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Úr íslenskum skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Opinber flokkun atvinnuveganna varð til þess að skilja mátti frétt í Ríkisútvarpinu á þann veg að skógrækt væri einn þeirra atvinnuvega sem losuðu mest kolefni út í andrúmsloftið. Staðreyndin er sú þvert á móti, að skógur er eitt stærsta mótvægið við losun okkar Íslendinga. Binding íslensku skóganna hefur stóraukist undanfarin ár og þeir binda nú ríflega hálfa milljón tonna af koltvísýringi á hverju ári. Binding skóganna mun enn aukast mikið á komandi árum og áratugum.

Skógræktin hefur fengið ábendingar frá áhyggjufullum skógræktendum sem skildu fréttir Ríkisútvarpsins 5. júlí þannig að skógrækt væri ein þeirra atvinnugreina sem losuðu mest kolefni á Íslandi út í andrúmsloftið. Í hádegisfréttum Útvarpsins þennan dag var sagt frá því að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefði aukist um 3,3% á síðasta ári samkvæmt Hagsjá Landsbankans sem kom út þá um morguninn. Skógrækt var í fréttinni talin upp í einum þeirra fjögurra flokka atvinnugreina sem bæru ábyrgð á yfir 80% af heildarlosun atvinnulífsins hér á landi á árinu. Flokkarnir eru þessir:

  1. Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar
  2. Framleiðsla málma
  3. Flutningar á sjó
  4. Losun með flugi

Ástæða er til að vekja athygli á því að jafnvel þótt skógrækt sé talin með í fyrsta flokknum þýðir það ekki að skógrækt sé stór losunarvaldur hér á landi. Skógrækt lendir einfaldlega í flokki með greinum sem losa mikið. Losun er mikil vegna landbúnaðar og fiskveiða. Hér er því einungis um flokkun atvinnugreina að ræða sem auðvitað er mannanna verk og hefur í þessu tilviki valdið misskilningi um losunartölur.

Skógrækt eitt stærsta mótvægið við losun

Auðvitað er losun frá skógrækt ekki einn stærsti þátturinn í losun Íslands. Þvert á móti er skógrækt einn stærsti þátturinn í bindingu landsins. Örlítil losun verður vegna skógræktaraðgerðanna sjálfra og vegna náttúrlegrar öndunar trjánna en sú losun nemur ekki nema tveimur prósentum af því sem íslensku skógarnir binda á hverju ári. Ef heildarlosun vegna landbúnaðar er skoðuð og borin saman við bindingu íslensku skóganna kemur fram að skógarnir binda yfir 80 prósent af því magni sem landbúnaðurinn losar.

Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, fjallaði um bindingu íslensku skóganna á Loftslagsdeginum sem fram fór í Hörpu í Reykjavík 3. maí í vor. Þar komu meðal annars fram eftirfarandi staðreyndir:

  • Binding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá 1990 og er nú rúmlega hálf milljón tonna CO2 á ári
  • Skógur bindur 83% af losun landbúnaðarins
  • Losun frá skógum og vegna skógræktarframkvæmda er aðeins 2% af bindingu skóganna
  • Bindingin er mest í ræktuðu skógunum, 71%, þótt þeir séu aðeins fjórðungur af öllu skóglendi landsins
  • Binding í birkiskógum og birkikjarri er 29% eða 160 þúsund tonn á ári
  • Skógar og kjarr þekja nú 2% landsins, þar af birkiskógar og birkikjarr 1,5%

Binding skóganna mun áfram aukast

Skógrækt hefur aukist umtalsvert síðustu misserin á Íslandi, ekki síst vegna aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Stjórnvöld stefna að því að auka þekju birkiskóga á landinu úr einu og hálfu prósenti í fimm prósent fram til 2030 undir merkjum Bonn-áskorunarinnar. Jafnframt hafa opinber framlög til nytjaskógaverkefna farið vaxandi og nú koma fyrirtæki og einstaklingar í auknum mæli með fjármagn til skógræktar sömuleiðis, innlendir og erlendir aðilar. Binding íslensku skóganna á því eftir að halda áfram að aukast eftir því sem þeir vaxa og þekja þeirra eykst.

Texti: Pétur Halldórsson