Áhyggjur bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs tíundaðar í Fréttablaðinu

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs segir skógrækt eiga undir högg að sækja og því sé mjög mikilvægt að ríkið veiti strax meira fé til plöntuframleiðslu og gróðursetningar svo staðið verði við gerða samninga og ræktunaráætlanir. Frá þessu er greint á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu í dag, 11. maí. Í fréttinni segir enn fremur:

„Landsframleiðsla á skógarplöntum hefur hrapað úr rúmlega sex milljón plöntum niður í um þrjár milljónir plantna. Samdrátturinn hefur sett rekstur gróðrarstöðva í uppnám og er nú svo komið að flestar eiga í töluverðum rekstrarerfiðleikum og sumar hafa þegar hætt störfum,“ segir í bókun bæjarstjórnarinnar sem kveður skógrækt mikilvæga atvinnugrein á Fljótsdalshéraði.

Þá segir að undanfarin ár hafi fjárveitingar til skógræktar minnkað. „Þetta hefur valdið því að ársverkum í gróðrarstöðvum hefur fækkað verulega og verktökum fækkað í gróðursetningu og girðingavinnu. Þessi mikli samdráttur á framleiðslu skógarplantna undanfarin ár mun hafa alvarleg áhrif á afkomu hinna ýmsu greina sem byggja afkomu sína á skógrækt og skógarvinnslu.“

- gar