Frá vinstri: Sylvi Listhaug, landbúðnaðar- og matvælaráðherra Noregs, Göran Person, forseti ThinkFor…
Frá vinstri: Sylvi Listhaug, landbúðnaðar- og matvælaráðherra Noregs, Göran Person, forseti ThinkForests, Mihail Dumitru, aðalritari landbúnaðarsviðs Evrópuráðsins, og Lauri Hetemäki hjá EFI

Skrefin fram undan rædd í Brussel

Á morgunfundi ThinkForest-verkefnisins sem haldinn var í húsakynnum Evrópuþingsins í Brussel  í gær, 13. nóvember, var rætt um þá möguleika sem atvinnugreinar byggðar á skógum eiga í þróuninni til lífhagkerfisins. Einnig voru þau vandamál til umræðu sem loftslagsbreytingarnar bera með sér og það mikilvæga hlutverk sem skógarnir geta gegnt í baráttunni við þær breytingar.

ThinkForest er samræðuvettvangur fyrir hátt setta embættismenn, stjórnmálamenn og hagsmunafólk, rekinn á vegum evrópsku skógastofnunarinnar, European Forest Institute (EFI), til þess að miðla upplýsingum og efla samræðu og skilning svo móta megi stefnu og taka upplýstar ákvarðanir um skógarmálefni.

Skógar og lífhagkerfið - skrefin fram undan

Sylvi Listhaug, ráðherra landbúnaðar- og matvælamála í Noregi, ræddi á fundinum í gær um reynslu Norðmanna. Hún benti á að timbur úr skógunum hefði verið grunnurinn að iðnaðaruppbyggingu í Noregi og nú þyrfti að hverfa aftur til þess uppbyggingaranda sem þá var við lýði. Þar væri samvinna forsendan fyrir góðum árangri. Þær atvinnugreinar sem byggðust á skógum og skógarnytjum yrðu stöðugt að leita nýrra og nýstárlegra leiða til þróunar til þess að geta staðist samkeppni í nútíð og framtíð. Þar nefndi hún nýstárlegar aðferðir við notkun timburs í framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði, meðal annars fjórtán hæða timburbygginguna sem nú er í smíðum í Björgvin. Endanlegum nýtingarmöguleikum trjáviðar væri alls ekki náð og þróunin í átt að lífhagkerfi fæli í sér mikla möguleika fyrir skógargreinarnar.

Dr Lauri Hetemäki hjá EFI fór yfir meginniðurstöður skýrslunnar Future of the European Forest-Based Sector: Structural Changes Towards Bioeconomy sem fjallar um framtíð atvinnugreina í Evrópu sem byggjast á skógrækt og skógarnytjum og þær breytingar sem þurfa að verða á leiðinni til lífhagkerfisins. Hetemäki lagði megináherslu á helstu viðfangsefnin sem vekja þyrfti athygli á, bæði hjá stjórnmálafólki og þeim sem hagsmuna eiga að gæta, svo skógargeiranum mætti takast að gera sig gildandi í lífhagkerfinu. Hann kynnti enska hugtakið ‘creative destruction' sem við gætum kallað 'skapandi eyðingu' á íslensku og ræddi líka um nýja möguleika sem fælust í afleiddri þjónustu í tengslum við framleiðslunýjungar. Á sviði skógræktar og skógariðnaðar yrði að vera samhljómur milli manna, skýr og skipulögð stefna mörkuð en menn þyrftu líka að þekkja takmörk auðlindarinnar, þá togstreitu sem gæti verið milli mismunandi nýtingar skóga, ólíkar aðstæður á ólíkum svæðum og nauðsyn þess að líta til lengri framtíðar með skipulag og fjárfestingar í huga.

Í fyrirspurnum og umræðum fólks á fundinum voru áhyggjur af loftslagsbreytingum áberandi og spurði fólk annars vegar út í þau tækifæri sem gætu falist í breytingunum fyrir skógrækt og skógarnytjar, svo sem eins og nýjar framleiðsluvörur sem leystu af hólmi vörur úr jarðefnaeldsneyti, og hins vegar þær ógnir sem með þessu kæmu eins og vindfall í skógum og þurrkar. Francesc Gambús, þingmaður á Evrópuþinginu, talaði um þann vanda sem skógareldar væru á Spáni og Göran Person, forseti ThinkForest, benti á að skógarumræðan á komandi árum yrði nátengd umræðunni um loftslagsbreytingar.

Á þessum viðburði ThinkForest-verkefnisins var saman komið stefnumótandi fólk, vísindafólk og hagsmunafólk og fundurinn fór fram í húsakynnum Evrópuþingsins í Brussel.

Nánari upplýsingar

• Ítarlega dagskrá fundarins má finna hér.
• Hlaða má niður ThinkForest-útdrættinum Future of the European Forest-Based Sector and Bioeconomy
• Ritið Future of the European Forest-Based Sector: Structural Changes Towards Bioeconomy fjallar um framtíð atvinnugreina í Evrópu sem byggjast á skógrækt og skógarnytjum og þær breytingar sem þurfa að verða á leiðinni til lífhagkerfisins. Það kom út fyrr á þessu ári hjá evrópsku skógastofnuninni, European Forest Institute, í röðinni What Science Can Tell Us.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Sylvi Listhaug, landbúðnaðar- og matvælaráðherra Noregs, Göran Person, forseti ThinkForests, Mihail Dumitru, aðalritari landbúnaðarsviðs Evrópuráðsins, og Lauri Hetemäki hjá EFI.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Simon Pugh