Styðja eindregið endurskoðun náttúruverndarlaga

Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands var haldinn á Hótel Selfossi þriðjudagskvöldið 11. mars 2014. Stjórn félagsins flyst nú til Norðurlands. Nýr formaður var kosinn Bergsveinn Þórsson og aðalmenn með honum í stjórn Brynjar Skúlason og Rakel Jónsdóttir. Varamaður er Guðríður Baldvinsdóttir.

Tvær ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum. Annars vegar var ályktað um að gerð skógræktaráætlana skyldi vera á höndum skógfræðinga einna og hins vegar styður aðalfundurinn eindregið að ný náttúruverndarlög verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Einar Gunnarsson, umsjónarmaður Landgræðsluskóga hjá Skógræktarfélagi Íslands, lagði fram tillögu að eftirfarandi ályktun:


Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands, haldinn á Selfossi 11. mars 2014, styður eindregið þá tillögu umhverfis- og auðlindamálaráðherra, að taka náttúruverndarlög sem ganga áttu í gildi þann 1. apríl n.k. til gagngerrar endurskoðunar. Félagið vísar til fyrri umsagna sinna og annarra fagaðila í  skógrækt um lögin á meðan þau voru til umfjöllunar.

Félagið lýsir sig reiðubúið til að vinna með stjórnvöldum að bættri löggjöf á sviði skógarmála, náttúru- og umhverfisverndar og bendir á að fyrstu náttúrverndarlögin voru „Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ sem samþykkt voru af Alþingi árið 1907. Skógargeirinn býr því að langri reynslu um hvernig virkja má þjóðfélagið til góðra verka.

Tillagan var samþykkt.

Þá var einnig samþykkt á aðalfundinum ályktun sem snertir gerð skógræktaráætlana. Í verkefnum sem njóti opinberra styrkja krefjast skógfræðingar þess að skógfræðimenntað fólk sjái um áætlanagerðina. Ályktuninni fylgir greinargerð og hvort tveggja verður sent umhverfisráðuneytinu og framkvæmdastjórum landshlutverkefnanna í skógrækt:

Ályktun:
Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands, haldinn á Selfossi 11. mars 2014 krefst þess að sett verði í samninga um ríkisstyrkta skógrækt, í væntanlega reglugerð um Landshlutaverkefnin í skógrækt og í væntanleg ný lög, ákvæði þess efnis að skógfræðingar skuli gera skógræktaráætlanir.

Greinargerð:
Forsenda fyrir góðum árangri í nýræktun, meðferð og nýtingu skóga er að ákvarðanir séu teknar af fólki með þekkingu á viðfangsefninu. Í tilviki skógræktar er besta tryggingin fyrir því að svo verði sú að skógfræðingar geri skógræktaráætlanir. Með hugtakinu „skógfræðingur“ er átt við einstakling með viðurkennda háskólagráðu í skógfræði. Með hugtakinu „skógræktaráætlanir“ er átt við áætlanir um nýræktun (ræktunaráætlanir), umhirðu (meðhöndlunaráætlanir), grisjun, fellingu og endurnýjun skóga (nýtingaráætlanir).

Í upphafsáætlunum og eldri samningum sumra landshlutaverkefnanna í skógrækt voru ákvæði þess efnis að skógfræðingar skuli gera ræktunaráætlanir. Í endurskoðun og samræmingu samninganna hefur þessu verið sleppt. Í drögum að reglugerð um Landshlutaverkefnin kemur ekki fram að skógfræðingar skuli gera skógræktaráætlanir. Þarna er ekki nægilega hugað að faglegum vinnubrögðum um þætti í áætlunum svo sem ákvörðunum um tegundaval, jarðvinnslu, grisjunarmagn og endurnýjum skógarins svo dæmi séu nefnd. Þetta þarf að lagfæra í samningum Landshlutaverkefnanna strax og setja inn í reglugerðina. Þegar kemur að endurskoðun laga þarf svo að lögleiða að skógfræðingar skuli koma að gerð skógræktaráætlana. Jafnframt verði því haldið til haga við endurskoðun skógræktarlaga að lögvernda starfsheitið skógfræðingur.