Í sumar er unnið að gerð skógarstíga í Haukadal í Biskupstungum. Skógarstígar þessir eru hannaðir fyrir hreyfihamlaða og verkefnið samvinnuverkefni Sjálfsbjargar á Suðurlandi, Skógræktar ríkisins, Svæðisvinnumiðlunar Suðurlands og Bláskógabyggðar. Verkefnið er styrkt af Pokasjóði. Stígarnir eru breiðari, halla minna og hafa fíngerðara og harðara yfirborðslag heldur en hefðbundnir skógarstígar og eiga að verða færir fólki í hjólastólum. Fjórir starfsmenn vinna við verkið á vegum Svæðisvinnumiðlunar Suðurlands, ásamt 2-3 starfsmönnum Skógræktar ríkisins. Alls er áætlað að leggja um 1,5 km af stígum í sumar og verður haldið áfram með verkefnið á næsta ári ef fjármagn fæst.

 

Á meðfylgjandi myndum sjást starfsmenn jafna undirlag fyrir stíginn með grófri möl og grafa niður staura fyrir brú sem lögð verður yfir Kaldalæk.