Morgunblaðið, þriðjudaginn 20. janúar, 2004 - Landsbyggðin

Skógarráðstefna á Laugum í Sælingsdal

Búðardalur | Ráðstefna um samspil milli skógarþekju og lífs í ám og vötunum var haldin að Laugum í Sælingsdal dagana 15.-16. janúar.

Skógarráðstefna á Laugum í Sælingsdal - mynd
Morgunblaðið/Helga Ágústsdóttir

Félögin sem stóðu að ráðstefnunni eru Vesturlandsskógar, Félag Skógarbænda á Vesturlandi, Skógrækt ríkisins, Veiðimálastofnun og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Tveir gestafyrirlesarar komu auk annarra, þau Colin Bean frá Skotlandi, og var erindi hans um skógrækt og ferskvatnsfiskistofna á Skotlandi, mat á umhverfisáhrifum og leit að lausnum, og Eva Ritter sem fjallaði um Líf-jarðefnafræði og vatnsgæði skógarvistkerfa Norður-Evrópu. Eva Ritter er í doktorsnámi í Danmörku og ætlar að kom hér aftur og þá til dvalar og starfa við rannsóknir á Mógilsá og kennslu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður að hætti Gunnars Björnssonar veitingamanns í Dalakjöri og kvöldvaka, þar sem heimamenn, þau Sigvaldi Fjelsted og Melkorka Benediktsdóttir, sáu um tónlistarflutning. Alls voru boðaðir 108 manns á ráðstefnuna en tæplega 90 manns mættu og má kenna slæmu veðri um allt land þessi forföll. Ráðstefnuhaldarar hældu Hótelinu á Laugum og töldu staðinn mjög góðan til fundarhalda en hótelið hefur nýlega verið gert upp og eru þar bæði ráðstefnusalir, sundlaug, sauna og íþróttasalur.