Fjöldi hönnuða tekur þátt í samsýningu

Skógarnytjar fá sinn sess á Hönn­un­ar­mars sem fer fram í tíunda sinn á vegum Hönnunarmiðstöðvar Íslands dagana 15.-18. mars. Vöru­hönnuð­ur­inn Björn Steinar Blumenstein skipuleggur viðburð undir heitinu Skógarnytjar í samvinnu við Skóg­ræktina og fjölda hæfileikaríkra hönnuða.

Viðfangsefnið er skógaauðlindin sem nú er farin að sýna sig á Íslandi og takast þátttakendur á við þetta efni í samsýningu sem unnin er með hliðsjón af kortlagningu skógarauðlindarinnar.

Í kynningartexta á vef Hönnunarmars segir að á meðan búast megi við umtalsverðri aukningu skóg­ar­nytja á komandi árum hafi nýsköpun ekki farið vaxandi samhliða. Í ljósi þess hafi fjölda hönnuða verið boðin þáttaka í umræddri samsýningu. Björn Steinar framleiðir frumgerðir eftir innsendum tillögum sem settar verða upp á sýningunni. Tekin eru skref í átt að bættum úrvinnsluiðnaði og efldri skógrækt með sýningu á frumgerðum húsganga/nytjahluta.

Á Hönnunarmars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggð er á traustum grunni og gegnir veiga­miklu hlutverki í samtímanum. Á meðal viðburða ár hvert eru sýningar, fyrirlestrar og innsetn­ingar. Á Hönnunarmars sameinast allar greinar hönnunar; fatahönnun, arkitektúr, húsgagna- og innanhússhönnun, grafísk hönnun og vöruhönnun.

Viðburðir Hönnunarmars eru skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arktitektum. Þátttakendur eru um 400 talsins á hverju ári. Æ fleiri erlendir þátttakendur koma til landsins með hverju ári. Á vef há­tíðarinnar segir að með þessu bjóðist tækifæri til að auðga andann og sækja innblástur. Hátíðin sé orðin mikilvægt hreyfiafl í íslensku samfélagi og skipti miklu fyrir  þátttakendur.

Í stuttu myndbandi sem Hlynur Gauti Sigurðsson, kvikmyndasmiður Skógræktarinnar, hefur gert, segir Björn Steinar stuttlega frá verkefninu.

Hönnunarmars 2018 - Björn Steinar Blumenstein

Texti: Pétur Halldórsson