Líf og fjör á jólamarkaðnum á Vöglum
Líf og fjör á jólamarkaðnum á Vöglum

Jólamarkaður á Vöglum tókst vel og fram undan er Jólakötturinn í Barra

Jólamarkaðir eru haldnir víða um landið á aðventunni og Skógræktin tekur þátt í slíkum viðburðum á nokkrum stöðum. Á laugardag verður Jólakötturinn haldinn að venju í Barra á Valgerðarstöðum í Fellum. Árlegur jólamarkaður í Vaglaskógi um síðustu helgi var vel sóttur.

Nokkuð óvenjuleg stemmning var á jóla­markaðnum á Vöglum á laugardaginn var því nú er að mestu snjólaust í skóginum sem er harla óvenjulegt á aðventunni. Í fyrra, þegar markaðurinn var haldinn í fyrsta sinn, var mikill snjór og 20 stiga frost.

Þótt mörgum kunni að hafa þótt minna jólalegt sökum snjóleysisins kom á móti að sumarfæri var á vegum og lagði á fjórða hundrað manns leið sína í skóginn til að líta það sem í boði var og ná sér í eitthvað til jólagjafa eða jólahalds. Aðsókn var ívið meiri en í fyrra og heldur fleiri seljendur sem flestir voru ánægðir með sinn hlut eftir daginn.


Jólamarkaðurinn á Vöglum var nú haldinn annað árið í röð og útlit fyrir að þetta verði árlegur viðburður í skóginum. Úrvalið var enn fjölbreyttara og meira í ár en í fyrra og gestir komu víða að úr Þingeyjarsýslu, Eyjafirði og jafnvel lengra til. Smám saman sjá seljendur hvað best selst og á hverju viðskiptavinir hafa mestan áhuga og verður spennandi að sjá hvernig markaðurinn þróast á komandi árum. Nokkuð seldist af jólatrjám úr skóginum og vonandi verður það fastur liður í jólaundirbúningi margra að ná sér í jólatré og ýmislegt fleira á Vöglum á aðventunni.


Þrátt fyrir snjóleysið verður ekki annað sagt en tekist hafi að gera jólalegt á Vöglum eins og sést á meðfylgjandi myndum með myndar­legum kyndl­um úr lerki­drumb­um, jóla­seríum, jólatrjám og ýmsum skreytingum.

Jólakötturinn á laugardag



Þannig er það orðið á Valgerðar­stöð­um í Fellum þar sem Jólakötturinn er hald­inn árlega í húsnæði Barra. Jóla­kötturinn fer nú fram laugardaginn 17. desember og verður mikið um dýrðir eins og venjulega. Auk margs konar varnings sem til sölu verður fá gestir að njóta skemmtiatriða, rjúkandi rússa­súpa verður á boðstólum og að sjálfsögðu ketilkaffi að skógarmanna sið. Hægt verður að kaupa ljúffenga hátíðarmatinn, ýmiss konar handverk, spenn­andi jólagjafir og auðvitað alls kyns skógarafurðir. Ellefu ár eru nú liðin frá því að efnt var til jólamarkaðar undir þessu heiti, Jólakötturinn. Markaðurinn hefst klukkan 12 á laugardag og stendur til kl. 16. Hann er samstarfsverkefni Skóg­rækt­ar­innar, Félags skógarbænda á Austur­landi og Barra gróðrarstöðvar.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Benjamín Örn Davíðsson