Dagana 17.-25. október s.l. fóru þeir Jón Loftsson, Þröstur Eysteinsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson í ferðalag til Skotlands.  Ferðin var skipulögð af Íslandsvininum Jean Balfour til þess að áhrifamenn í íslenskri skógrækt kynntust því helsta sem er að gerast í skoskri skógrækt.  Í leiðinni sóttu þeir félagar þriggja daga fund barrtrjáahóps EUFORGEN (meira um þann fund seinna).

Er flogið var inn yfir Skotland var þar heiður himin og því hið ákjósanlegasta útsýnisflug.  Í vesturhluta Skotlands er fjöllótt og strjálbýlt nema við ströndina. Hálendisdalirnir eru víða ekki byggðir eftir hinar svo kölluðu hálendishreinsanir á átjándu öld þar sem fólki var skipt út fyrir sauðfé vegna gróðasjónarmiða.   Þar var áður fjölbreyttur kotbúskapur sem hélt uppi allmiklum fólksfjölda, en landið var í eigu lorda (eða lairda á skosku) sem margir bjuggu suður í Englandi og ábúendur voru réttlausir leiguliðar.  Svo gerðist það að einhver hagfræðingur reiknaði út að landeigendur gátu grætt meira á því að reka þarna stór sauðfjárbú en til þess þurfti að rýma landið.  Var það gert með talsverðri hörku og leiguliðar fluttir nauðugir til Nýja Skotlands (Nova Scotia).  Hálendið fylltist af kindum og í kjölfarið hurfu skógarnir.  Gömul saga og ný.  Ólíkt Íslendingum tengja Skotar sauðfé við yfirgang, níðingshátt og landauðn.  Þeim finnst fjarstæðukennt að efling byggðar og stuðningur við sauðfjárrækt fari saman.

(efri mynd: Andrew Barber sýnir sjáfsáningu sifjalerkis, neðri mynd: Blair Atholl kastali innrammaður í skógi.)

Í bjartviðrinu voru sitkagrenireitirnir áberandi í landslaginu og greinilegt að einn munur á Skotlandi og Íslandi er að Skotar geta ræktað skóg upp á hæstu tinda eða því sem næst.  Einnig var áberandi hvað skógarnir voru litlir í heildarlandslaginu þrátt fyrir 20% skógarþekju.  Nær Ísland einhvern tíma 20% skógarþekju þannig að skógar verði lítill hluti landslags en ekki pínupínulítill eins og nú er?

Eftir glannalega lendingu í svartaþoku í Glasgow tók Jean á móti þremenningunum á flugvellinum.  Ekið var rakleiðis til Dunkeld í hjarta Big Tree Country, en það nafn varð nýlega til sem hluti kynningarverkefnis á vegum ríkisskógræktarinnar skosku, enda eru trén gjarnan stór á þessum slóðum.  Kynningin heppnaðist svo vel að nú hafa sveitarstjórnir og mörg fyrirtæki tekið nafnið upp sem samheiti yfir Perth-skíri.   Í Dunkeld hittu ferðalangar Andrew Barber, skógarvörð Atholl Estates, sem er gamalt hertogadæmi og það eina slíka í Evrópu sem enn rekur sinn eigin her (sem kemur saman einu sinni á ári til að klæðast pilsum, blása í sekkjapípur og drekka whisky).

Andrew leiddi ferðalangana í allan sannleik um meðferð lerkiskóga (evrópu-, japans- og sifjalerki) ekki síst m.t.t. náttúrlegrar endurnýjunar, sem virðist takast mjög vel undir skermi á þessum slóðum.  Aðalmálið er að halda dádýrum frá í nokkur ár eða fækka þeim með veiðum á meðan á endurnýjun stendur.  Andrew dró upp framkvæmdaáætlun fyrir skóglendi Atholl sem saman stóð af allmörgum þemakortum.  Um leið kvartaði hann svolítið undan skriffinsku og seinagangi hjá ríkisskógræktinni.

Akstur um skógarvegi Atholl var skemmtun út af fyrir sig því þar hlupu undan bílnum tvær tegundir fasana, rádýr og hérar.  Greinilega paradís veiðimanna auk þess að vera gullfallegt skógarlandslag. 

ÞE