(Mynd: Umhverfisráðuneytið)
(Mynd: Umhverfisráðuneytið)
Nú stendur yfir í Noregi sameiginlegur fundur ráðherra skógarmála í Evrópu. Fundurinn er haldinn af Forest Europe og koma saman ráðherrar og fulltrúar þeirra, alls frá 46 löndum auk Evrópusambandsina. Að fundinum koma einnig aðilar ýmissa stofnana og samtaka sem vinna að skógarmálum. Fundurinn hófst í dag þegar Hákon krónprins opnaði fundinn formlega en hann stendur til fimmtudagsins 16. júní.

Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hafi í dag skrifað undir tvær yfirlýsingar fyrir Íslands hönd: annars vegar ráðherrayfirlýsingu um vernd og sjálfbæra nýtingu skóga Evrópu og hins vegar umboð til að hefja samningaviðræður um lagalega bindandi samning um vernd og sjálfbæra nýtingu skóga í Evrópu. Þar kemur einnig fram að ráðherrayfirlýsingin, sem kallast Oslo Ministerial Decision: European Forests 2020, sé ekki lagalega skuldbindandi en hafi mikla þýðingu fyrir framkvæmd og stefnumótun skógarmála einstakra landa sem að henni standa. Samningsumboðið sem umhverfisráðherra undirritaði í dag gefur hins vegar heimild til að hefja viðræður um hugsanlega lagalegan bindandi samning þjóða Evrópu sem miðar að því að efla vernd og sjálfbæra nýtingu skóga álfunnar. Gert er ráð fyrir því að samningaviðræðurnar hefjist í haust og er stefnt að því að samningur sem löndin geta tekið afstöðu til liggi fyrir árið 2013.

Fundinn sitja fyrir Íslands hönd, auk Svandísar, þeir Jón Loftsson, skógræktarstjóri og Jón Geir Pétursson, sérfræðingur ráðuneytisins.

 




Mynd: Umhverfisráðuneytið