Hugmyndafræði útileikskólanna hefur breiðst út um heiminn frá Skandinavíu frá því að hún mótaðist á …
Hugmyndafræði útileikskólanna hefur breiðst út um heiminn frá Skandinavíu frá því að hún mótaðist á sjötta áratug síðustu aldar. Mynd: Carl Crafoord/norden.org

Víða væri tækifæri fyrir slíka skóla hérlendis

Í skógarleikskóla alast börnin upp í nánum tengslum við náttúruna og kynnast eðlisþáttum hennar, hringrásum lífs og efna, verndun og nýtingu en líka að uppgötva og skapa. Víða á Íslandi eru vaxnir upp skógarreitir sem nýta mætti til slíkrar starfsemi.

Skógarleikskólar eiga uppruna sinn í Skandinavíu og gjarnan er þessi uppruni rakinn til Sollerød í Danmörku. Þar stofnaði Ella Flatau „gönguleikskóla“ upp úr 1950 þar sem daglegar gönguferðir voru snar þáttur í skólastarfinu. Á næstu árum tóku mæður að koma upp leikskólum utan við þéttbýlið í Kaupmannahöfn. Börnunum var ekið í hópferðabílum út í náttúruna og starfið fór fram utan dyra hver sem árstíminn var og hvernig sem viðraði.

Utan dyra geta börnin lært allt um lífið og tilveruna. Í skógarleikskólum komast þau í snertingu við lífið og dauðann, plönturnar og dýrin, hringrásir efna í náttúrunni og svo framvegis. Gjarnan eru hænur og jafnvel fleiri dýr í skógar­leik­skól­um, börnin læra hvernig lífverur fjölga sér, hvaðan maturinn er og fleira og fleira. Þau kynnast því jafnvel að ala upp dýr, bera virðingu fyrir þeim, fara vel með þau og þykja vænt um þau en líka að slátra þeim og borða sem er gangur lífsins ef rétt er að farið. Þau fá útrás fyrir sköpunargleðina en líka fróðleiksþrána. Skógur er endalaus upp­spretta athugana og uppgötvana. Efniviður skógarins er nýttur, tálgað úr tré og fleira slíkt og börnin læra að fara með eld, reyna styrk sinn við að klifra í trjám eða leysa ýmis verkefni og örva þannig öll skilningarvitin og stæla kroppinn.

Um tíundi hver leikskóli í Danmörku er nú skógarleikskóli eða útileikskóli af einhverjum toga þar sem starfið fer fram að mestu utan dyra, gjarnan í skógum eða öðru náttúrlegu umhverfi. Auðvitað sýnist sitt hverjum um slíkt skólastarf og allt hefur sína kosti og galla en kostirnir eru ótvíræðir. Hugmyndafræði skógarleikskólanna hefur breiðst út til annarra Evrópulanda, til dæmis Þýskalands. Þar eru reknir skógarleikskólar sem starfa utan dyra alla daga enda gefur skógurinn skjól og útileikskóla er mun auðveldara að reka í skógi en á berangri. Í meðfylgjandi myndbandi kemur m.a. fram að yfir 1.000 skógarleikskólar séu reknir í Þýskalandi og Sviss.

Wild Kindergarten

Hvernig væri að hugað yrði að því að koma upp skógarleikskólum á Íslandi nú þegar myndarlegir skógar og trjálundir eru vaxnir upp vítt og breitt um landið? Útikennsla hefur vissulega farið vaxandi í bæði leik- og grunnskólum en betur má ef duga skal og skógarnir bíða þess að verða nýttir betur. Til eru þó leikskólar sem hafa tekið skref í þessa átt, til dæmis leikskólinn Álfheimar á Selfossi. Undanfarin ár hefur skólinn farið með börnin út í skóg einu sinni í viku þar sem þau dvelja megnið af deginum.

Nánar um skógarleikskóla

Texti: Pétur Halldórsson