úr Morgunblaðinu 19/1

Byggt með ímyndunaraflinu - Kubbar úr trjágreinum í ýmsum stærðum geta reynst skemmtileg leiktæki

Leikföng þurfa ekki að vera hátæknileg eða byggjast á framúrstefnulegri hönnun til að falla börnunum vel í geð. Því hefur leikskólakennarinn Ingibjörg Thomsen fengið að kynnast, en hún hóf fyrir skemmstu innflutning á trékubbum, svonefndum Skógarkubbum þar sem lögun og ytra byrði greinanna er látið halda sér. Kubbana er Ingibjörg þessa dagana að kynna fyrir leikskólakennurum og -börnum á höfuðborgarsvæðinu.
"Skógarkubbarnir henta vel til að örva bæði skapandi hugsun sem og rökhugsun barnanna og það er gaman að sjá hvað krakkar, allt niður í tveggja ára aldur, hafa gaman af að leika sér með þá. Hugmyndaflug þeirra fer á fullt þegar þau sjá hvað er hægt að gera." segir Ingibjörg. "Það er þó mikið atriði að kubbarnir og hvað þeir bjóða upp á sé kynnt fyrir börnunum því við það fer hugarflug þeirra sjálfra af stað." Ingibjörg segir möguleikana með svo opnum efnivið í raun endalausa, en kubbarnir eru einingakubbar í nokkrum mismunandi stærðum og er tveggja sentímetra stærðaraukning þar á milli.

"Kubbana má nota með öðrum leikföngum sem börnin eiga fyrir eða eru til á leikskólanum, t.d. alls konar dýrum og köllum og þá er hlutverkaleikur þeirra kominn á fullt. Svo má líka nota ýmis verðlaus efni á borð við tómar skyr- og jógúrtdósir, efnispjötlur og annað í þeim dúr. Með tómu dósunum hafa krakkarnir til dæmis reist svaka kastalabyggingar og það eru í raun alveg ótrúlegar byggingar sem koma út úr þessu hjá þeim."

Skógarkubbana fann Ingibjörg á Netinu við leit að áhugaverðum leikföngum. "Ég er leikskólakennari og hef alltaf haft mikinn áhuga á náttúrulegum efnivið í leikföngum og sérstaklega þeim sem ekki byggjast á fyrirfram ákveðnum lausnum. Ég var búin að láta mig dreyma um að finna einhverja svona kubba í dálítinn tíma og ætlaði því varla að trúa heppni minni."

Íslenska nafngiftin Skógarkubbar, en á ensku heita kubbarnir Tree Blocks, er hins vegar barna við leikskólann Laufásborg. "Þau eiga þessa nafngift sem á einkar vel við og þess vegna finnst mér enn skemmtilegra að nota hana."

barnagull.com / annaei@mbl.is