Forsíðuborðinn á skogarkolefni.is sýnir fimmtíu ára feril nýskógræktarverkefnis sem tekið er til vot…
Forsíðuborðinn á skogarkolefni.is sýnir fimmtíu ára feril nýskógræktarverkefnis sem tekið er til vottunar samkvæmt kröfusettinu Skógarkolefni. Myndina gerði Anita Hafdís Björnsdóttir, grafískur hönnuður

Ný útgáfa birtist í dag af kröfusettinu Skógarkolefni sem stuðlar að samræmi í kolefnisverkefnum með nýskógrækt. Um leið var opnaður nýr vefur Skógarkolefnis á slóðinni skogarkolefni.is. Í tilefni Loftslagsdags Umhverfisstofnunar í Hörpu 4. maí hefur verið gefið út nýtt myndband þar sem lýst er mikilvægi kolefnisbindingar með skógrækt og ábyrgra kolefnisverkefna.

Jafnvel þótt þýðingarmesta verkefnið í loftslagsmálunum sé að draga úr kolefnislosun getur nýskógrækt einnig gegnt mikilvægu hlutverki með því að sjúga koltvísýring úr lofthjúpnum. Æ fleiri opna nú augu sín fyrir þeim eiginleika skóganna að geta fjarlægt CO2 úr andrúmsloftinu, auk alls annars sem skógarnir geta gert fyrir samfélag og fjölbreytta náttúru. Vaxandi vilji er hjá bæði einstaklingum og í atvinnulífinu til að leggja sitt af mörkum með nýskógrækt svo binda megi kolefni á móti því sem samfélagið losar. En áður en fjárfest er í slíkum verkefnum vill fólk geta fullvissað sig um að viðkomandi aðferð muni í raun leiða til þess kolefnisávinnings sem haldið er fram.

Kröfur og staðlar vegna vottunar eru í stöðugri endurskoðun enda er eðli vottunarstarfs að stefna að stöðugt meiri gæðum. Nokkur nýskógræktarverkefni hafa nú þegar verið skráð í Loftslagsskrá Íslands til vottunar eftir kröfusettinu Skógarkolefni. Engar grundvallarbreytingar hafa orðið á kröfusettinu með útgáfu 2.0 en þar hefur ýmislegt verið aukið, skýrt betur og orðalag lagfært. Jafnframt hefur verið bætt við ýmsu ítarefni, vísunum í fræðilegar heimildir og margvíslegum gagnlegum upplýsingum. Vefurinn er bæði á  íslensku og ensku.

Skógar og kolefni á Loftslagsdeginum í Hörpu

Umhverfisstofnun stendur að Loftslagsdeginum í Hörpu fjórða maí eins og undanfarin ár og tekur Skógræktin virkan þátt í þeim viðburði, bæði með framsögu Arnórs Snorrasonar, deildarstjóra loftslagsdeildar, og sérstakri kynningu á Skógarkolefnisreikni, reiknivél sem byggð er á yfir eitt þúsund mælingum á mæliflötum í skógum vítt og breitt um landið og gagnast við að áætla bindingu í nýjum skógræktarverkefnum. Í tilefni Loftslagsdagsins var gert myndband þar sem Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, og Úlfur Óskarsson, verkefnastjóri kolefnismála, ræða um kolefnisbindingu með skógrækt í baráttunni við loftslagsvandann og mikilvægi þess að ráðast megi í gagnsæ og ábyrg verkefni eins og Skógarkolefni gerir kleift.

Texti: Pétur Halldórsson