Nýjung sem vekur verðskuldaða athygli enda tímamótatæki hérlendis

Sjónvarpið fjallaði í fréttum um nýju skógarhöggsvélina sem Kristján Már Magnússon skógarverktaki hefur flutt inn og tekið til kostanna við grisjun í íslenskum skógum. Fréttin er á þessa leið:

Fyrsta sérhæfða skógarhöggsvélin var nýlega flutt til landsins. Vélin dregur úr kostnaði við grisjun og er sögð marka tímamót í timburiðnaði.

Í Mjóanesi inn af Egilsstöðum er Kristján Már Magnússon að grisja með nýju sænsku skógarhöggsvélinni. Hann hafði höggvið skóg í fjögur ár með keðjusög og taldi tímabært að flytja inn hagkvæmari tækni. „Rannsóknir sýna það að hún er að vinna kannski á við 10 kalla sem eru í þessari grisjun. En þetta er náttúrulega bara æfing að ná upp einhverjum hraða í þessu. Sjáum til hvernig verður eftir eitt ár.“

Átta hjóla vélin kemst auðveldlega um skógana og höggarmurinn liðast 10 metra til að seilast í rétta tréð.

Grisjunarviður varð skyndilega verðmætur þegar Elkem á Grundartanga fór að nota hann í staðinn fyrir kox og kol. Erfitt hefur reynst að manna skógarhögg með keðjusögum og að óbreyttu hefði Skógræktin átt erfitt með að standa við aukna afhendingu til Elkem. Aukin afköst nýju vélarinnar gera grisjun líka ódýrari og lækka um leið verð á grisjunarvið sem keppir við innflutt iðnaðartimbur. Þótt Kristján Már fari með nýju vélina um allt land verða ekki næg verkefni allt árið og sumstaðar er ekki hægt að grisja með öðru en keðjusögum. Skógar hér á landi eru víða orðnir of þéttir því fjármagn til grisjunar hefur ekki dugað. Nýja vélin grisjar hinsvegar meira fyrir sama pening og stuðlar þannig að betri trjávexti og verðmætari afurðum.

„Það eru allir samstíga í því að stíga þetta skref og sjá hvort það er ekki bara kominn tími á að gera þetta en skógarnir eru náttúrulega að stækka hratt,“ segir Kristján Már. „Miðað við það sem maður er búinn að fylgjast með undanfarin ár þá á þetta eftir að breytast gríðarlega sérstaklega á Austurlandi það er búið að planta svo mikið. Það á eftir að breytast mjög mikið á tíu árum.“

Því má halda til haga að þetta er ekki fyrsta skógarhöggsvélin sem flutt er til Íslands. Fyrir um 8 árum flutti  Guðjón Helgi Ólafsson inn Menzi Muck skógarvél sem starfaði í um þrjú ár við grisjun og gróðursetningu. Síðar grisjaði danskur verktaki með svipaðri vél í Skorradal. Vonandi reynist þessi þriðja vél vel og gefur tóninn fyrir það sem koma skal. Eftir er að sjá hvort hún reynist jafnvel við grisjun sitkagrenis og stafafuru eins og hún hefur þegar reynst við grisjun lerkiskóga á Héraði.