Um fimmtán metra löng og þriggja metra há stæða af furubolum úr grisjun á Vöglum
Um fimmtán metra löng og þriggja metra há stæða af furubolum úr grisjun á Vöglum

Ung atvinnugrein á Íslandi

Eftir því sem skógarnir okkar vaxa upp þarf meira að hirða um þá og í fyllingu tímans verður fjöldi fólks að störfum í nytjaskógunum við skógarhögg og endurræktun skóganna. Við stöndum nú á þeim tímamótum að skógarhögg er að orðið að atvinnugrein hérlendis. Meðal þeirra sem hafa atvinnu af skógarhöggi er Benjamín Davíðsson, skógfræðingur í Eyjafjarðarsveit. Hann segir mikil tækifæri í greininni og þau eigi bara eftir að aukast. Þetta sé hins vegar líkamlega erfið vinna, dýrt að koma sér upp nauðsynlegum búnaði og enn sem komið er áhættusamt að ráða til sín mannskap í fasta vinnu.


Benjamín er skógfræðingur frá landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi og lauk námi í vor sem leið. Fyrsta skógarhöggsverkefni hans var árið 2008 þegar hann tók að sér verkefni í Skorradal í félagi við Valdimar Reynisson, skólabróður sinn frá Hvanneyri, sem nú er skógarvörður á Vesturlandi. Á þeim tíma starfaði Benjamín sem verkefnisstjóri hjá Héraðs- og Austurlandsskógum og vildi kynnast grisjunarstarfi af eigin raun. Hann starfaði svo sjálfstætt sem verktaki um hríð en fór því næst til framhaldsnáms í Noregi. Að loknu náminu þar ákvað Benjamín að hasla sér völl sem skógarhöggsmaður.

Hugmyndin er að stofna fyrirtæki um þetta seinna meir en Benjamín segir ekki alveg komið að því. Ekki borgi sig að flýta sér of mikið. Enn vanti meiri stöðugleika í greinina. Stundum sé ekki hægt að vinna í skógunum vegna veðurs, bleytu eða snjóþyngsla og þá þurfi að vera hægt að sinna öðrum verkefnum á meðan. Eftir því sem greinin þroskast segir Benjamín að hægt verði að vinna að ýmiss konar framleiðslu með grisjunar- og skógarhöggsstarfinu. Þá megi koma upp sögunarmyllum og framleiða borðvið, staura, kurl undir búpening og fleira og fleira, en allt þetta er enn á byrjunarstigi.

Benjamín er enn með starfsemi sína á eigin kennitölu en hefur með sér mann sem líka er sjálfstæður verktaki. Þeir höggva mikið á Vöglum í Fnjóskadal og Vöglum á Þelamörk. Undanfarið hafa þeir unnið að svokallaðri bilun fyrir Norðurlandsskóga. Skógarmenn kalla það bilun þegar bilin eru jöfnuð milli trjánna í skóginum til að þau tré sem eftir verða fái betra rými til að vaxa. Valin eru úr þau tré sem þykja líklegust til að verða góð timburtré en önnur felld. Nú eru víða vaxnir upp skógar og skógarreitir sem ekki hafa fengið þessa meðferð. Til dæmis eru margir af skógum Skógræktar ríkisins þessu marki brenndir enda var lengi vel hvorki mannskapur til grisjunarstarfanna né markaður fyrir afurðirnar. Undanfarið hefur járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga keypt trjávið til að nota sem kolefnisgjafa í kísilmálmbræðslu. Það léttir mjög undir þessari ungu atvinnugrein sem skógarhöggið er.

Grisjun skóga fer fram á ýmsum tímum ársins, segir Benjamín, en það er tvennt sem helst hindrar, mikil snjóalög annars vegar og hins vegar miklar bleytur og rigningar. Þá er erfitt að fara um skógana með stór tæki og timburvagna. Víða eru líka ófullnægjandi slóðar í skógunum sem verða fljótt ófærir í bleytutíð og þessu segir Benjamín að þurfi að bæta úr. Í svartasta skammdeginu eru líka fáir klukkutímar í sólarhringnum nógu bjartir til þessara starfa. Hann nefnir líka að vegna þess hversu litlir flestir eldri skógarreitirnir eru á Norðurlandi fari mikill tími í akstur og miklir peningar í eldsneyti.

En hvað þarf til að byrja í skógarhöggi? „Að vera ótrúlega vitlaus, bara,“ segir Benjamín og hlær. „Nei, nei, fólk þarf bara að hafa trú á þessu,“ heldur hann áfram. Þeir félagarnir vinna verk sín með keðjusög eina að vopni en Norðurlandsskógar og Skógrækt ríkisins sjá um að flytja trjáviðinn úr skógunum með tækjum sínum. Nú eru komnir timburvagnar með krana á allar starfstöðvar Skógræktar ríkisins, Skógræktarfélag Eyfirðinga á einn vagn og skógverktaki á Austurlandi einn til. Meiri er búnaðurinn ekki á landinu enn sem komið er. Þetta á þó eftir að vaxa og dafna, telur Benjamín.

Mest er að gera í þessu á Austurlandi því þar er meira um stóra skóga frá fyrstu árum landshlutabundnu skógræktarverkefnanna. „Eftir um það bil áratug verður brjálað að gera í skógum landsins fyrir öflugt skógarhöggsfólk,“ segir Benjamín. Þá verði hægt að vera með fólk í vinnu allt árið, reka sögunarmyllu, framleiða staura og jafnvel borðvið, kurl undir skepnur og fleiri afurðir eins og fyrr er nefnt. Þegar örugg verkefni verða fyrir starfsfólkið árið um kring verður fyrst raunverulegur möguleiki að reka skógarhöggsfyrirtæki með góðu móti, að sögn Benjamíns. „Það eru reyndar næg verkefni allt árið, bæði í skógarhöggi og svo gróðursetningu á sumrin. Reynsla síðasta vetrar situr hins vegar í mönnum enda var ekki hægt að grisja á Norðurlandi stóran hluta vetrar og því áhætta að ráða marga menn til vinnu þegar ekki eru önnur verkefni en grisjun á boðstólum. Til að reksturinn standi undir launakostnaði þarf að vera hægt að vinna að öðru þegar ófært er í skógunum vegna snjóa eða bleytu,“ segir Benjamín Davíðsson, skógarhöggsmaður í Eyjafjarðarsveit, í samtali við vef Skógræktarinnar.

Meðfylgjandi myndir tók Benjamín fyrir fáeinum dögum í skammdegisskímunni.



Og hér eru tvær myndir til. Sigurður Skúlason, skógarvörður í Vaglaskógi, tók mynd af lestun trjáviðar í Vaglaskógi og Rúnar Ísleifsson náði mynd þegar timburflutningabíllinn ók um Akureyri með viðarfarm úr Vaglaskógi á leið suður á Grundartanga.