Það var flaggað við hreppsskrifstouna á Flúðum í dag. Ástæðan var sú að Flúðaskóli hlaut menntaverðlaun Suðurlands. Verðlaunin hlýtur skólinn fyrir verkefnið Lesið í skóginn. Verðlaunin voru afhent síðdegis á hátíðarfundi Fræðslunets Suðurlands. Það er menningar- og menntamálanefnd Sass sem veitir þessu verðlaun og afhenti formaður nefndarinnar, Eydís Indriðadóttir verðlaunin. Eins og fyrr segir hlaut Flúðaskóli verðlaunin fyrir verkefnið Lesið í skóginn, tálgað í tré. Hefur skólinn orðið leiðandi á landsvísu í þessu verkefni og er nú í samstarfi við marga aðra skóla um land allt vegna þessa. Á fundinn mættu kennarar sem hafa starfað að verkefninu ásamt Guðmundi Magnússyni sem er einn af forvígismönnum þess ásamt skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.

Í morgun fóru þeir Ragnar Magnússon oddviti Hrunamannahrepps og Ísólfur Gylfi sveitarstjóri og afhentu skólanum blómvönd af þessu tilefni. Var af þessu tilefni haldinn fundur með nemendum og kennurum á sal þar sem þeim var óskað til hamingju með heiðurinn.



Texti og mynd: Vefsíða Hrunamannahrepps þann 13. febrúar 2010