Hér er birtur texti viðtals Björns Malmquist fréttamanns við Hallgrím Indriðason, skipulagsráðunaut hjá Skógrækt ríkisins. Viðtalið var flutt var í „Laugardagsþættinum“ á Rás 1 ríkisútvarpsins, laugardaginn 30. júní. Þar var fjallað um áhættu og viðbúnað vegna hugsanlegra skógarelda hér á landi.

 

Við heyrum reglulega af skógareldum sem upp blossa erlendis, oftast í kjölfar mikilla þurrka og hita. Fyrir nokkrum árum þurftu Portúgalir að kljást við einn slíkan þar sem hundruð íbúa voru flutt frá heimilum sínum og undanfarna daga hafa slökkviliðsmenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum verið að berjast við víðáttumikla elda í skóglendi nálægt Tahoe-stöðuvatninu í norðurhluta ríkisins. Þar hafa hundruð heimila orðið eldinum að bráð og þúsundir íbúa fluttir í burtu. Þótt hættan á skógareldum hér á landi sé vissulega óveruleg miðað við víða annars staðar, ekki síst vegna veðurfarsins, þá er hún þó fyrir hendi. Brunamálayfirvöld hérlendis festu nýlega kaup á búnaði fyrir slökkvistarf úr lofti og þær stofnanir sem tengjast skógrækt hafa fellt brunavarnir inn í áætlanir sínar. Þau samtök sem rutt hafa brautina í þeim efnum eru Suðurlandsskógar. Ekki að ástæðulausu því óvíða á landinu er að finna fleiri sumarhús í skóglendi en einmitt á því svæði.

Hallgrímur Indriðason, skipulagsráðunautur hjá Skógrækt ríkisins: Áhættan er líka mjög mikil í kringum sumarhúsin þar sem fólk er, þar er auðvitað eldhættan meiri og það er mjög mikilvægt að hafa tiltækar áætlanir og þessar áætlanir þær eru þá fyrst kannski tengdar ræktunarstarfinu sjálfu, hvernig svæðum er skipt niður, hvernig eldvarnir, hvernig skógurinn er bundinn niður í eldvarnarhólf sem hægt er að gera. Það er líka hægt að bregðast við þessu með gróðursetningunum sjálfum. Taka tillit til þess hvaða tegundir eru settar næst vegum og hérna þannig að það myndist einhverjar hindranir. En síðan þarf auðvitað tækjabúnað og það þarf tækni og það þarf síðast en ekki síst mjög náið samstarf við slökkvilið viðkomandi svæða. Við höfum auðvitað í mörg ár verið meðvituð um þetta ástand að þetta og reynslan hefur kennt okkur það að það er nauðsynlegt að skipta skóginum niður í svona sem við getum kallað eldvarnarhólf og þetta hefur verið gert til dæmis hérna í Kjarnaskógi á Akureyri. Þar var meðvitað hugað að þessum málum með stígagerð, vegagerð og skurðum, en þetta þarf auðvitað alltaf að vera í skoðun og eftir því sem skógurinn stækkar þeim mun meiri líkur eru á að eldur hlaupi þá yfir svona hólf og þá þarf að bregðast við því með grisjunum til dæmis. Þannig að hvert svæði þarf að eiga sína sérstaka áætlun.

Björn Malmquist: Hvað með íslenska skóginn sem sagt eins og hann er í sjálfu sér frá náttúrunnar hendi og náttúrulega frá sem sagt og hvernig hann er ræktaður upp. Sérðu fyrir þér hættuna á skógareldi hér?

Hallgrímur Indriðason: Sko, ef við tölum um sem sagt íslenska, náttúrlega birkiskóginn, þá er það fyrst og fremst af mannavöldum sem að geta komið upp skógareldar þar. Eldhættan þar er mest á meðan sinan þar er þurrust á vorin. En botngróður birkiskógarins er allt annar heldur en til dæmis í barrskógunum þar sem þeir verða þéttir og lokaðir þá hérna eru meiri líkur á því að þar geti borist eldur í sjálf trén. Og það er hægt að huga að þessu með ýmsu móti en ég held að það sé ekki svo mikil hætta. En viðbragðsáætlanir þurfa alls staðar að vera til fyrir hendi, einnig í  náttúrlegu  birkiskógunum. Það er að verða miklu meiri umferð um þá en áður og því fylgir líka áhætta.

Skógareldar hérlendis eru sem betur fer fátíðir og eðli málsins samkvæmt verða þeir sjaldnast stórir.

Hallgrímur Indriðason: Skógareldar á Íslandi verða nú flestir til svona bara nánast af fikti. Þeir skógareldar sem hafa orðið hvað mestir hér eru nú nátengdir þéttbýlinu og og þá börnum að leik með eld.

Björn: Hvar hafa þeir verið þessir skógareldar hér?

Hallgrímur Indriðason: Mér eru nú minnisstæðir skógareldar og kjarreldar í nágrenni þéttbýlisins á suðvesturhorninu, á útivistarsvæðunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, sem komu upp snemma vors þegar sinan var þurr. En stórir skógareldar hafa svo sem ekki orðið hér á landi en við verðum auðvitað að hugleiða það að skóglendi er að aukast mjög mikið, það eykst kannski um 1000-2000 hektara á ári þessi árin og það þarf auðvitað að bregðast við þessu. Það þarf að huga að þeim möguleika að eldur geti kviknað í skógi og valdið tjóni. Við höfum horft upp á þessa sinu- og mosaelda sem brunnu nú í vor og í fyrravor og örugglega eigum við eftir að lenda í þessu með skógana okkar einhvern tímann. Þá þurfum við að hafa tiltækar áætlanir.

Á meðan fréttist af víðáttumiklum skógareldum eins og þeim sem geisað hafa síðustu daga í Kaliforníu þar sem hundruð heimila hafa brunnið og þúsundir íbúa fluttir á brott.

Hallgrímur Indriðason: Þarna erum við náttúrulega að tala um þétta, gamla skóga með miklum uppsöfnuðum eldsmat, þar sem trén geta verið á bilinu 20 til 30 metra há og á þessum slóðum eru svakalegir þurrkar sem vara lengi, miklu lengur en við þekkjum. Því verður allur eldsmatur mjög eldfimur og erfitt getur verið að ná í vatn til slökkvistarfa. Við þetta bætist að byggðin er nánast inni í skógunum og þess vegna skapast þetta hættuástand þar að mínu mati. En og í flestum tilvikum, verða skógareldar vegna afglapa mannanna. Það eru íkveikjur, fikt eða slys sem að verða og þar með verða skógareldar en hinir náttúrulega skógareldar hér fyrr voru miklu oftar vegna eldinga og við höfum nú blessunarlega sloppið við það hér á landi.

Björn: Og hvernig tilfinning er það fyrir skógræktarmenn að fylgjast með svona viðamiklum skógareldum?

Hallgrímur Indriðason: Það er náttúrulega ótrúleg tilfinning. Ég hef svo sem bara einu sinni upplifað skógareld á ævinni, það var í Noregi fyrir mörgum árum síðan og maður verður svolítið máttlaus þegar að svona gerist og þegar þú hefur elda allt í kringum þig og jafnvel yfir höfðinu á þér þá hérna þá gerirðu ekkert mikið annað en að hugsa um að forða þér. En ég held að með góðri skipulagningu á ræktunaráætlunum og með góðu samstarfi við brunavarnayfirvöld þá getum dregið úr líkunum á tjóni og hindrað tjón, þótt við getum aldrei fyllilega komið í veg fyrir að svona gerist hér.