Vinnubrögð arborista verða kynnt á Skógardeginum mikla sem að venju verður haldinn í Mörkinni Hallormsstað þriðja laugardaginn í júní sem að þessu sinni ber upp 22. dag mánaðarins. Fjölbreytt dagskrá verður að venju.

Skógardagurinn mikli verður nú haldinn í fimmtánda sinn og hefst kl. 11 með 14 kílómetra skógarhlaupi um skógarstíga en ræst verður í skemmtiskokk fjölskyldunnar stundarfjórðungi fyrir tólf, fjögurra kílómetra hlaup fyrir alla. Klukkan tólf hefst fyrsti hluti skógarhöggskeppni þar sem keppt verður um Íslands­meistara­titil.

Í Mörkinni hefst formleg dagskrá svo klukkan 13 og kynnir þar verður Guðný Drífa Snæland skógarbóndi. Meðal skemmtiatriða má nefna tónlistaratriði með Kór Áskirkju, Fjarðadætrum, Øystein og Steinunni og Norðan 4 til 5. Lokagreinar í skógarhöggi fara fram og krýndur Íslandsmeistari en einnig verða afhent verðlaun fyrir skógarhlaupið. Ýmsar þrautir verða í boði, trélistafólk verður á staðnum og teymt verður undir börnum.

Þá verður einnig forvitnilegt að fylgjast með því hvernig arboristar starfa, ný stétt manna hérlendis sem hafa fengið þjálfun í því að klifra í trjám til að snyrta þau eða fella. Þetta er vandasamt verk enda þarf að klifra með ýmis tæki og tól og beita keðjusög hátt uppi í trjám. Nokkrir Íslendingar hafa sótt sér þekkingu og þjálfun í þessu fagi eins og fjallað var um á Fagráðstefnu skógræktar á Hallormsstað í apríl síðastliðnum.

Að venju bjóða félög nautgripa- og sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum upp á grillað kjöt og ýmislegt annað góðgæti verður á boðstólum. Dagskrá Skógardagsins mikla lýkur svo klukkan 16.

Texti: Pétur Halldórsson

Veggspjald Skógardagsins mikla 2019