Milli sex og sjö hundruð manns sóttu Skógardaginn mikla að þessu sinni þrátt fyrir heldur vott og sv…
Milli sex og sjö hundruð manns sóttu Skógardaginn mikla að þessu sinni þrátt fyrir heldur vott og svalt veðurútlit um morguninn. Meðan á dagskránni stóð rættist úr veðrinu og allt fór vel fram.

Sigfús Jörgen Oddsson varð Íslandsmeistari í skógarhöggi

Skógardagurinn mikli var nú haldinn í 13. sinn á Hallormsstað og í þetta sinn komu milli sex og sjö hundruð manns í skóginn. Það er nokkru færra en venjulega enda fremur svalt í veðri þennan dag og úrkomu­samt um morguninn þótt úr rættist þegar dagskráin hófst eftir hádegið.

Að venju var mikið um dýrðir og áður en formleg dagskrá hófst voru keppendur ræstir í 14 kílómetra skógarhlaup um skógarstíga ásamt 4 km skemmtiskokki og fyrri hluti skógarhöggskeppninnar hófst.

Á hátíðinni kom Kammerkór Egilsstaða­kirkju fram, skógar- og nautabændur buðu upp á heilgrillað naut og meðlæti, pylsur voru grillaðar í hundraðavís, skógarmenn sáu um lummur, ormabrauð og ketilkaffi og Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum grillaði lambakjöt ofan í gesti.

Ískóginum spreyttu gestir sig í bogfimi, alls kyns þrautum og tálgun eða skemmtu sér við að hlýða á tónlistarfólkið sem kom fram á sviðinu, Anyu Shaddock, sigurvegara Samfés 2017, Kristjönu Stefánsdóttur og Svavar Knút

Félag skógarbænda á Austurlandi auglýsti eftir þátttakendum í samkeppni um listaverk úr trjáviði í samstarfi við Fljótsdalshérað. Verkin voru fyrst til sýnis á Skógardeginum mikla og voru veittar viðurkenningar fyrir þau þrjú verk sem gestir hátíðarinnar töldu áhugaverðust. Fyrstu verðlaun voru 150.000 krónur en 50.000 krónur fyrir önnur og þriðju verðlaun. Ætlunin er að trjálistaverkin verði til sýnis á opnu svæði á Egilsstöðum út sumarið 2017 og því var þátt­takendum uppálagt að búa til verk sem myndu þola útiveruna í sumar.

Þrjú verk voru verðlaunuð:

  1. Grétar Reynisson
  2. Thomas Rappabort (þýskur listamaður)
  3. Eyþór Halldórsson

         

Úrslitin í skógarhöggskeppninni urðu þau að Sigfús Jörgen Oddsson varð Íslandsmeistari í skógarhöggi, Bjarki Sigurðsson lenti í öðru sæti og Lárus Heiðarsson í því þriðja. Í 14 kílómetra skógarhlaupi voru þátttakendur tólf talsins og úrslitin urðu þessi:

Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur skemmtu á Skógardeginum mikla við mikinn fögnuð gesta.

Konur:

  1. Elva Rún Klausen - 1973     Tími - 1:18:08
  2. Unnur Þorláksdóttir - 1962   Tími - 1:24:59
  3. Ingibjörg Ásta - 1993            Tími - 1:27:28
  4. Hlín Stefánsdóttir 1982        Tími - 1:28:23

 Karlar:

  1. Birkir Einar Gunnlaugsson - 1995 Tími - 59:29
  2. Fannar Logi - 2000                      Tími - 1:17:38
  3. Hjalti Þórhallsson - 1985             Tími - 1:17:41
  4. Kári Valur Hjörvarsson - 1970      Tími - 1:21:11
  5. Björn Ingvarsson - 1952              Tími - 1:22:06
  6. Jón Arnórsson - 1975                  Tími - 1:25:52
  7. Stefán Smári Jónsson - 1988      Tími - 1:30:54
  8. Benóný Eiríksson - 1965             Tími - 1:32:38

Frá verðlaunaafhendingu eftir Íslandsmeistaramótið í skógarhöggi. Íslandsmeistaratitilinn hreppti Sigfús Jörgen Oddsson.

Þess má geta að Hjalti Þórhallsson, skógarhöggsmaður á Hallormsstað, sem lenti í þriðja sæti í hlaupinu var nýkominn úr hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon þar sem hann hjólaði með liði Skógræktar­innar. Liðið lenti í 46. sæti af 111 liðum. Greini­legt er að Hjalta er ekki fisjað saman.

Öllum gestum og þátttakendum í Skógar­deginum mikla á Hallormsstað 2017 er þakkað innilega fyrir komuna og þátt­tök­una og vonandi sjáumst við sem flest á næsta ári. Um næstu helgi eru Skógar­leikar í Heiðmörk eins og sagt er frá í annarri frétt hér á vefnum og á viðburða­dagatalinu.

Texti: Pétur Halldórsson