Norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland er meðal gesta Skógardagsins mikla að þessu sinni. Hér …
Norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland er meðal gesta Skógardagsins mikla að þessu sinni. Hér eru nemendur hans að spreyta sig með sagirnar á námskeiði í blíðunni á Hallormsstað.

Keðjusagarlistamaður heldur námskeið og sýnir listir sínar

Hin árlega hátíð, Skógardagurinn mikli, verður haldinn með hefðbundnu sniði á morgun, laugardaginn 25. júní, í Mörkinni á Hallormsstað. Spáð er sól og hita og því verður gaman að njóta alls þess sem í boði verður í skóginum. Meðal þeirra sem sýna listir sínar á hátíðinni verður norski listamaðurinn Arne Askeland sem notar keðjusög til að skera út fugla og ýmislegt fleira úr trjábolum.

Arne Askeland er bóndi og keðjusagar­listamað­ur búsettur á býlinu Askeland á Hörðalandi. Hann heldur í dag námskeið fyrir áhugasama skógarhöggsmenn og kennir þeim hvernig á að bera sig að listsköpun með keðjusög. Gestir Skógar­dagsins mikla geta svo fylgst með því á morgun hvernig hann sker út líklegustu og ólíklegustu fígúrur úr trjábolum með þessu grófgerða verkfæri sem keðjusögin lítur út fyrir að vera. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá hvernig Arne sker út uglu á listilegan hátt með söginni.

Arne Askeland

Aðaldagskrá Skógardagsins mikla verður á morgun en þess má geta að líf verður líka í skóginum í kvöld því þá stígur Karlakórinn Heimir úr Skagafirði á svið með tónleika. Dagskráin á morgun hefst svo með skógarhlaupinu klukkan 12 en formleg dagskrá í Mörkinni hefst klukkan 13 með Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Dómari í keppninni verður Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Sauðfjárbændur á Austurlandi grilla lambakjöt fyrir gesti, Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir börnum að fara með hníf og tálga í tré undir eftirliti fullorðinna. Unnið verður með reynigreinar og þeim breytt í töfrasprota eða göngustafi. Á dagskránni eru að venju tónlistaratriði og margt fleira eins og sjá má í dagskránni hér fyrir neðan. Því er útlit fyrir frábæran dag í skóginum og auðvitað eru allir velkomnir.


  .


Meistarinn Arne Aspeland mótar andlit í trjádrumb. Skyldi það segja eitthvað
um úrslit kosninganna á morgun?



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson og Ólafur Oddsson