Í skógum víða um land má finna allskyns ber sem henta vel í matargerð. Berin má nota á margvíslegan hátt, svo sem í sultu, hlaup, saft, í bakkelsi og víngerð.


Hrútaber

Seinni part sumars má finna hrútaber á víð og dreif um landið. Þau finnast helst í frjósömum brekkum, skógum og kjarri. Frekari upplýsingar um útbreiðslu hrútaberja má finna á heimasíðu Náttúrfræðistofnunar Íslands.

Berin eru góð, bæði fersk og í sultu eða hlaupi. Bragðið af þeim er dálítið beiskt og þau henta því t.d. vel með kjöti. Vert er þó að benda á að hrútaber verða sætari eftir fyrsta væga næturfrost haustsins.


Reyniber

Reynitré má finna um allt land, bæði í skógum og í görðum. Reyniber eru dálítið römm á bragðið og því getur verið gott að láta þau liggja í vatni í nokkra daga áður en þau eru notuð í matargerð. Það sama á við og um hrútaber, reyniber eru best eftir fyrsta næturfrostið.


Rifsber

Rifsber vaxa ekki villt á Íslandi en þau er samt sem áður að finna á víð og dreif um allt land. Þau er t.a.m. að finna á Hallormsstað.

 

Hindber

Á nokkrum stöðum á Íslandi vaxa hindbert, t.d. við Rannsóknarstöðina á Mógilsá auk þess sem þau vaxa í litlum mæli á Hallormsstað og í Múlakoti í Fljótshlíð. Í kringum 1980 voru gróðursettar 20-30 hindberjaplöntur í 40 ára gömlum skógarlundi ofan við Rannsóknarstöðina á Mógilsá. Síðan hafa plönturnar breiðst út, aðallega með rótarskotum, og því er mikil uppskera orðin árviss í byrjun septembermánaðar. Flestir hindberjarunnanna er komnir af fræjum sem safnað var í Noregi, en þeim er auðvelt að koma fyrir í skógum og skjólgóðum görðum.

 

Berjahlaup og -saft

(úr hrútaberjum, rifsberjum eða reyniberjum)

Berin eru soðin í potti við vægan hita þar til þau springa. Þeim er hellt á grisju og vökvinn látinn renna af þeim. Vökvinn er settur í pott og soðinn. Potturinn er tekinn af hellunni og vökvinn látinn kólna örlítið.

 

Saft: Hálfu kílói af sykri er bætt út í á móti hverjum lítra af vökva. Sykurinn og vökvinn soðinn saman í nokkrar mínútur. Froðan er veidd ofan af, saftinni hellt í heitar flöskur og þeim vel lokað.

Hlaup: Einu kílói af sykri er bætt út í á móti hverjum lítra af vökva. Sumir vilja einnig setja örlítinn sítrónusafa. Potturinn er settur aftur á helluna og vökvinn og sykurinn látinn hitna, þó ekki sjóða. Hrært er í þar til sykurinn leysist upp. Hlaupinu er svo hellt heitu í krukkur og það látið kólna áður en lokin eru sett á.