Á jörðinni Skógargerði í Fellahreppi er í fyrsta skipti verið að höggva jólatré og selja.  Þetta eru sennilega í fyrsta skipti sem skógarbændur á Héraði fá tekjur af skóginum sínum með þessum hætti.  Fólk er boðið að koma síðustu aðventuhelgina (20. ?21. des) út í skóg og velja og höggva sjálft sitt jólatré.  Skógræktarfélag Fljótsdalshéraðs hefur lengi haft þennan hátt á og fyrr í desember auglýsti Skógrækt ríkisins á Hallormsstað samskonar jólatrjáasölu.  Fjölskyldan fer oftast saman að velja tréð og þykir mörgum ólíkt skemmtilegra að sækja sitt tré út í skóg frekar en í búð.  Sérstaklega hafa börnin gaman af þessum sið.

Jólatrén í Skógargerði eru úr stafafurureit sem var gróðursettur 1986, fyrir tíma Héraðsskóga.  Víkingur bóndi í Skógargerði sagði að á þeim tíma hafi tré verið gróðursett með allt of stuttu millibili  Ástæðan fyrir því var annars vegar að menn höfðu takmarkaða trú á fyrirtækinu, efuðust um að plönturnar myndu lifa af og hins vegar að fagleg þekking í skógrækt var ekki á því plani sem hún er í dag.  Allar plönturnar lifðu og döfnuðu og nú þarf að grisja skóginn því hann stendur allt of þétt.

Skógargerði hefur verið með í Héraðsskógaverkefninu frá upphafi og síðan 1999 hafa verið plægðir upp sérstakir jólatrjáaakrar að danskri fyrirmynd.  Í þeim eru ýmsar tegundir svo sem blágreni, rauðgreni, stafafura lindifura og fjallaþinur.  Plönturnar eru þá gróðursettar í gegnum plastdúk. Til að gefa þeim áburð í gegn um dúkinn notar Víkingur gamla ormalyfsdælu.  Trén dafna vel og reiknar Víkingur með að þau verði söluvara innan fárra ára.

Þeir sem vilja versla jólatré í Skógargerði fyrir þessi jól geta haft samband við Víking í síma 471-1935 eða Sólrúnu í síma 847-0125.