Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin hvetur skógarbændur til að huga strax að gróðursetningu og öðrum skógræktarframkvæmdum sem þeir áforma á jörðum sínum næsta sumar og skila áætlun þar um til Skógræktarinnar í síðasta lagi 5. janúar á nýju ári. Hlaða má niður sérstöku pöntunarblaði fyrir slíkar áætlanir. Allt flýtir þetta og bætir áætlanagerð fyrir verkefni sumarsins.

Starfsfólk skógarþjónustu Skógræktarinnar hefur verið í önnum síðustu vikur við gæðaúttektir og frágang eftir annir sumars og hausts. Þá hefur einnig verið mikið að gera við gerð nýrra áætlana fyrir bændur í skógrækt á lögbýlum, sem og fyrir einkaaðila og fyrirtæki sem nú leita í auknum mæli til Skógræktarinnar eftir ráðgjöf og áætlanagerð. Nú í svartasta skammdeginu er ætlunin að vinna sér í haginn og flýta vinnu við úthlutanir enn meir en hingað til. Þetta er m.a. gert vegna ábendinga frá bændum sem vilja gera flýta áætlanagerð fyrir komandi ár.

Munið 5. janúarTil að ná þessu markmiði er nú óskað eftir því að allir skógarbændur skoði skógræktaráætlanir sínar og skili í byrjun nýs árs áætlun um gróðursetningu og aðrar framkvæmdir á borð við jarðvinnslu, slóðagerð, girðingar og snemmgrisjun. Óskað er eftir að slíkum áætlunum vegna ársins 2022 sé skilað 5. janúar. Skógarbændur eru vinsamlega beðnir að hafa samband við skógræktarráðgjafa sinn og koma áætlunum sínum til hans. Gögnin þurfa að hafa borist skógræktarráðgjöfum í síðasta lagi 5. janúar 2022. Ef allt gengur eftir fá bændur staðfesta úthlutun og framkvæmdaloforð ársins í lok febrúar.

Helstu vörður 2022

  • 5. janúar í síðasta lagi: Skógarbændur skila áætlun/óskum ársins
  • 28. febrúar: Skógræktarráðgjafar senda út staðfestar plöntuúthlutanir og framkvæmdaloforð
  • Apríl-júní: Plöntudreifing
  • 24. júní: Dreifingarstöðvum lokað og þær tæmdar v. vorgróðursetninga
  • 1. ágúst: Skil á framkvæmdaskýrslum (Avenza-skráningum) v. vorgróðursetninga
  • ~15. ágúst-23. september: Plöntudreifing vegna haustgróðursetninga
  • 23. september: Dreifingarstöðvum lokað og þær tæmdar v. haustgróðursetninga
  • 10. október: Skil á framkvæmdaskýrslum (Avenza-skráningum) v. haustgróðursetninga

Frysting trjáplantna að aukast

Skógræktarráðgjafar eru tengiliðir bænda og skipta með sér svæðum eins og verið hefur. Þær trjáegundir sem verða í boði árið 2022 má sjá á meðfylgjandi pöntunarblaði í Excel-skjali. Á komandi vori verður hluti trjáplantnanna í boði í frystum einingum. Skógarbændur eru beðnir að  ræða við skógæktarráðgjafa sinn ef áhugi er á slíku en búast má við að í framtíðinni muni færast mjög í vöxt að skógarplöntur séu geymdar í frysti yfir veturinn.

Skógarþjónusta Skógræktarinnar hvetur skógarbændur til að skoða þessi mál sem fyrst og senda inn óskir eða pantanir svo að úthlutun og áætlanagerð komandi árs gangi sem best.

Texti: Pétur Halldórsson