Met fyrri eiganda að hlaða bílinn 4 m bolum var sjö mínútur

Fyrsti sérsmíðaði timbur­flutninga­bíllinn kom til landsins fyrir skömmu. Það er fyrirtækið Skógarafurðir ehf. í Fljótsdal sem keypti ækið sem samanstendur af bíl með hleðslupalli og krana og sérsmíðuðum tengivagni. Bændablaðið fjallar um málið og ræðir við Bjarka M. Jónsson hjá Skógarafurðum sem segir að þetta æki komi til með að auðvelda þeim mikið að sækja hráefni til vinnslunnar.   

Bíllinn er með krana með húsi og vagninn er hægt að lengja og stytta um 4 metra sem Bjarki segir mjög hentugt þegar snúa þurfi á þröngum skógarvegum en einnig til að hafa ekki vagninn lengri en hann þarf að vera miðað við lengd á trjábolunum. Bíllinn tekur tvo stafla af þriggja metra bolum eða einn af sex metra bolum og vagninn er hægt að setja þrjá stafla af fjögurra metra bolum.

Bjarki segir mun ódýrara og fljótlegra að hlaða timbri á þennan sérhæfða vagn en hingað til hefur þekkst við timbur­flutninga úr íslenskum skógum. Met fyrri eiganda við að hlaða á þennan bíl með fjögurra metra efni hafi verið sjö mínútur.

Auk þessa bíls keyptu Skógarafurðir líka fyrstu sérhæfðu vínekrudráttarvél landsins sem Bjarki segir sérhæfða til að vinna í miklum hliðarhalla og það henti vel í skógræktarvinnunni.

Bændablaðið hefur eftir Bjarka að Skógarafurðir hafi verið að byggjast upp mjög hratt á skömmum tíma með vinnslu timburs úr bændaskógum eystra og úr eigin skógi. Væntanleg sé ösp úr Sandlækjarmýri á Suðurlandi og Skorradal á Vesturlandi. Fyrirtækið framleiði mest panel, parket, pallaefni, utanhússklæðningar og eldivið. Þaðan fari einn til tveir bílar af eldiviði á mánuði fyrir pitsuhúsin.

Bjarki segir að markaðssetning á fyrirtækinu hafi gengið með ágætum. Sem stendur hafi þau ekki haft undan að fram­leiða nema í sérpantanir fyrir utan eldivið. „Við erum að taka það skref að fara að framleiða á lager staðlaðar stærðir af smíðavið. Í því augnamiði vorum við að biðja Skógræktina um þúsund rúmmetra af greni á ári,“ segir Bjarki M. Jónsson hjá Skógarafurðum í samtali við Bændablaðið.

Texti: Pétur Halldórsson