Skógar hægja á vatnsrennsli til sjávar, þeir hreinsa vatn, fóstra líf í vatni og margt, margt fleira…
Skógar hægja á vatnsrennsli til sjávar, þeir hreinsa vatn, fóstra líf í vatni og margt, margt fleira.

Alþjóðlegur dagur skóga 21. mars

Vatn er þema alþjóðlegs dags skóga hjá Sameinuðu þjóðunum þetta árið. Í tilefni af því hefur Skógrækt ríkisins sent frá sér myndband þar sem þrír íslenskir vísindamenn segja frá því mikilvæga hlutverki sem skógar heimsins gegna fyrir vatnsauðlind jarðarinnar. Tæpt er líka á niðurstöðum hinnar viðamiklu rannsóknar Skógvatns sem gerð var í austfirsku birkiskóglendi og ræktuðum barrskógum. Ekki þarf að koma á óvart að mun meira líf reyndist vera í skógivöxnu landi en utan skógar.

Þessi alþjóðlega skógarhátíð er gott tækifæri til að vekja athygli fólks á því að allar gerðir skóga og sömuleiðis tré utan skóga gegna mikilvægu hlutverki fyrir lífið á jörðinni. Þetta gildir á íslandi eins og hvarvetna annars staðar og hér er framlag Skógræktar ríkisins til alþjóðlegs dags skóga.

Skógar og vatn

Skógar þekja þriðjung landsvæða jarðarinnar og veita margvíslega þjónustu um gjörvalla heimsbyggðina. Um 1,6 milljarðar jarðarbúa hafa lífsviðurværi sitt af skógum. Þar með eru taldar yfir tvö þúsund þjóðir og þjóðflokkar frumbyggja.

Skógar eru fjölbreytilegustu landvistkerfi jarðarinnar og þar þrífast meira en átta af hverjum tíu tegundum dýra, plantna og skordýra. Auk þessa veita skógar skjól, atvinnu og öryggi öllum þeim samfélögum sem eiga allt sitt undir þeim.

Því er það sannarlega undrunarefni að mannkynið skuli áfram hamast við að eyða skógum jarðarinnar á ógnarhraða. Þetta gerist þrátt fyrir þá alkunnu vitneskju að skógar geri ómetanlegt gagn vistkerfunum, samfélögum og efnahag fólks og ekki síst heilsu okkar mannanna. Þrettán milljónir hektara skógar eru eyðilagðar árlega. Milli 12 og 20 prósent þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losna út í lofthjúpinn af mannavöldum eru rakin til skógareyðingar.

Árlega er gagnsemi skóganna hampað á alþjóðlegum degi skóga, 21. mars. Í þetta sinn var ákveðið að helga daginn vatni og vekja athygli á því hversu mikilvægir skógarnir eru fyrir ferskvatnsbirgðir jarðarinnar og þar með fyrir allt líf á jörðinni.

Vissir þú þetta?

  • Skógivaxin vatnasvið og votlendissvæði eru uppspretta þriggja fjórðu alls ferskvatns a jörðinni.
  • Íbúar um það bil eins þriðja allra stærstu borga heimsins fá neysluvatn sitt beint frá vernduðum skógarsvæðum.
  • Vatnsbirgðum næstum áttatíu prósenta jarðarbúa – 8 af hverjum 10 manneskjum – er ógnað.
  • Betri stjórn vatnsauðlinda getur skilað verulegum efnahagslegum ábata
  • Skógar eru náttúrlegar vatnshreinsistöðvar
  • Gróðurhúsaáhrifin valda breytingum á samspili skóga og vatnsflæðis á jörðinni sem gæti orðið til þess að aðgangur fólks að vatnsauðlindunum versni.
  • Skógar skipta sköpum við að byggja upp og viðhalda viðnámsþrótti

Sérstakur viðburður á alþjóðlegum degi skóga

Þema alþjóðadags skóga 2016 er „Skógar og vatn“. Að því tilefni verður á mánudag, 21. mars, haldin sameiginleg hátíð á vegum alþjóðlega skógardagsins og alþjóðlega vatnsdagsins í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Viðburðurinn kallast á ensku „Forests and Water | Sustain Life and Livelihoods“, skógar og vatn, vernd lífs og lífsviðurværis.

Að undirbúningnum stendur UNFF, skrifstofa skógarþings Sameinuðu þjóðanna, og UN-Water, sem er vatnsauðlindaskrifstofa SÞ, í samvinnu við ríkisstjórn Svíþjóðar.

Frekari upplýsingar um dag skóga má finna á vef skógarþings SÞ.

Texti, mynd og myndband: Pétur Halldórsson