Fullnægja má dagsþörf barns fyrir A-vítamín með 25 gramma skammti af rauðgulu afbrigði af mangóávext…
Fullnægja má dagsþörf barns fyrir A-vítamín með 25 gramma skammti af rauðgulu afbrigði af mangóávextinum. Mynd: IUFRO/Terry Sunderland.

Ný skýrsla undirstrikar mikilvægi skóganna fyrir afkomu fólks

Einn milljarður manna vítt og breitt um heiminn reiðir sig á skóga til öruggrar framfærslu og næringar. Enn er níundi hver jarðarbúi ofurseldur hungurvofunni og algengast er að fólk búi við hungur í Afríku og Asíu. Í skógum heimsins búa miklir möguleikar til að bæta næringarástand þessa fólks og tryggja því afkomu. Í raun eru skógar og skógrækt nauðsynlegir þættir til að tryggja fæðuöryggi enda kemur æ betur í ljós hversu takmarkaða möguleika mannkynið hefur til að afla sér fæðu með hefðbundnum landbúnaði.

Þetta styðja niðurstöður nýrrar rannsóknar, byggðar á viðamestu vísindalegu úttekt sem gerð hefur verið hingað til á samhengi skóga, fæðu og næringar. Rannsóknin var kynnt í New York miðvikudaginn 6. maí á skógarmálaþingi Sameinuðu þjóðanna, United Nations Forum of Forests (UNFF). Þing þetta hófst fjórða maí og stendur fram til föstudagsins fimmtánda.

Niðurstöður rannsóknarinnar komu út á vegum alþjóða skógvísindasambandsins IUFRO, stærsta samstarfsnets skógvísindafólks í heiminum. Þær sýna svart á hvítu hversu nauðsynlegt það er að viðkvæmustu hóparnir í mannfélögum jarðarinnar hafi öruggan aðgang að skógum og því fæðubúri sem skógarnir eru.

Yfir sextíu þekktir vísindamenn víðs vegar að úr heiminum unnu saman að ritrýndri grein um rannsóknina sem nefnist á ensku Forests, Trees and Landscapes for Food Security and Nutrition. A Global Assessment Report. Útgáfunni var ritstýrt hjá IUFRO fyrir hönd samstarfsnets Sameinuðu þjóðanna um skóga, CPF (Collaborative Partnership on Forests). CPF er eins konar bakhjarl eða stuðningsnet skógarþingsins UNFF.

Kakóbaunir eru mikilvæg tekjulind í skóginum, til dæmis í Kamerún.
Mynd: IUFRO/Terry Sunderland.

„Þessi skýrsla minnir okkur á það ómissandi hlutverk sem skógar hafa við að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa,“ sagði Thomas Grass, aðstoðarframkvæmdastjóri stefnumótunar við efnahags- og samfélagssvið Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt á miðvikudag. Hann sagði skýrsluna sýna að við þyrftum að horfa á fjölþætt samhengið og margbreytilega virkni náttúru og landslags þegar við skipulegðum skógrækt okkar og landbúnaðarkerfi upp á nýtt.

Christoph Wildburger, sem stýrir alþjóðlegu sérfræðingasamstarfi um skógrækt hjá IUFRO, Global Forest Expert Panels, benti á að stórtæk akuryrkja væri mjög viðkvæm fyrir öfgafullum stórviðrum sem við mætti búast að skyllu æ oftar á okkur með yfirvofandi loftslagsbreytingum. Vísindin hefðu sýnt okkur að landbúnaður þar sem trjárækt er fléttað saman við aðrar landbúnaðargreinar væri mun betur búinn til að standa af sér slíkar veðuröfgar en hefðbundinn sérhæfður búskapur. „Við vitum nú þegar að skógar leika mikilvægt hlutverk við að hamla gegn loftslagsbreytingum en þessi skýrsla gefur okkur skýrt til kynna að þeir leiki sömuleiðis mikilvægt hlutverk við að hamla gegn hungri og bæta næringarástand fólks,“ sagði Wildburger enn fremur.

Skógar gefa heilnæmt og fjölbreytt fæði

Bhaskar Vira sem starfar við Cambridge-háskóla og er verkefnisstjóri hjá sérfræðingaráði um skóga og matvælaöryggi, Global forest Expert Panel on forests and Food Security, tók efni skýrslunnar saman á fundinum í New York. Hún bendir meðal annars á að sú fæða sem sækja má í skógana gegni gjarnan hlutverki varaforða þegar sverfur að og matbjörg verður erfiðari. Í skýrslunni sé að finna eftirtektarverð dæmi um hvernig skógar og tré geta aukið við framleiðni í landbúnaði og þar með lífsbjörg heimafólks á hverjum stað, sérstaklega í viðkvæmustu heimshlutunum.

Gagnsemi skóga og trjáa til bættrar næringar er margvísleg:

  • Matvæli sem trén gefa af sér eru gjarnan mjög rík að vítamínum, prótínum og öðrum næringarefnum og auka fjölbreytni í mataræði. Til dæmis er járninnihaldið í þurrkuðum fræjum af afrísku fuglatré, Parkia biglobosa, álíka mikið og jafnvel meira en í kjúklingakjöti. Það sama má segja um hráar kasjúhnetur.
  • Villibráðarkjöt, fiskur og skordýr eru líka mikilvægar næringaruppsprettur. Skordýr eru sérlega ódýr matur og óþrjótandi forði af prótíni, feitmeti, vítamínum og steinefnum. Í Suðaustur-Asíu haga menn skógrækt sinni og skógarlandbúnaði þannig að sem mest uppskera fáist af ætum skordýraafurðum.
  • Skógar eru líka ómissandi uppspretta eldiviðar og viðarkola. Í þróunarlöndunum reiða um 2,4 milljónir heimila sig á endurnýjanlegt lífeldsneyti til eldamennsku og hitunar. Á Indlandi og í Nepal gildir þetta ekki aðeins um fátækari heimili heldur er eldiviður aðalorkugjafinn á vel stæðum sveitaheimilum líka.
  • Tré veita margvíslega vistkerfisþjónustu. Til dæmis fóstra þau býflugur og aðra frjóvgara sem eru nauðsynlegir allri akuryrkju. Þeir gefa líka skepnufóður sem gerir fólki kleift að framleiða bæði kjöt og mjólk. Sömuleiðis stuðla tré að verndun vatnakerfa og vatnsfalla þar sem fiskur þrífst.

Skógar auka möguleika fátækra til lífsviðurværis

Að því er segir í skýrslunni lætur nærri að einn af hverjum sex jarðarbúum treysti beinlínis á skóga sér til lífsviðurværis og framfærslu. Á Sahel-svæðinu sunnan Sahara í Afríku má til dæmis rekja um 80% af innkomu heimila til trjáa. Þar vegur þyngst frameiðsla á shea-hnetum. Einnig sýna gögnin að um allan heim gildi hið sama, að því minni sem velmegun fólks sé, því meira treysti það á afurðir trjáa og skóga.

Í skýrslunni má lesa um aðgerðir sem nú eru í gangi í Afríku til að þróa nýjar söluvörur úr skógarafurðum til að sjá fátæku fólki fyrir sjálfbærum tekjulindum. Sem dæmi er nefnt að fátækir framleiðendur í Tansaníu hafi verið virkjaðir með í alþjóðlegu átaki til að vinna úr fræjum nytjajurta af ættkvíslinni Allanblackia. Þessar jurtir gefa æta olíu sem mætti selja á heimsmarkaði. Novella Africa heitir samsteypa opinberra aðila og einkafyrirtækja sem vinnur að því að koma upp sjálfbærum iðnaði með Allanblackia-olíu sem gæti velt milljörðum króna árlega og skapað smábændum mikilvægar tekjur.

Lirfur eru daglegt brauð fólks í Amason-frumskóginum.
Mynd: IUFRO/Nathalie van Vliet.

Bhaskar Vira bendir á að það sem viðheldur hungri í heiminum sé ekki endilega skortur á mat heldur miklu frekar skortur á aðgengi að mat og forræði yfir matvælaframleiðslunni. Viðurkenna þurfi rétt fólks til að geta aflað sér matar og veita því meiri stjórn yfir matvælaframleiðslunni. Forsenda þess að tilraunir til að sigrast á fátækt með sjálfbærum hætti beri árangur sé að umráðaréttur fólks verði aukinn en líka að réttindi kvenna verði betur virt enda sé ábyrgðin á matvælaframleiðslu á bæði landbúnaðarlandi og skógarsvæðum æ meira að færast yfir á herðar kvenna.

Tenging skóga og landbúnaðar eykur fæðuöryggi

Jafnvel þótt skógar séu ekki allsherjarlausn á hungri í heiminum er undirstrikað með skýrslunni umræddu að það sem skógarnir gefa sé mjög mikilvæg viðbót við það sem hefðbundinn landbúnaður gefur. Mikilvægi þessarar viðbótar sé augljósast þegar matarskortur steðjar að vegna þurrka, verðsveiflna á markaði, stríðsátaka eða annarrar óáranar. Þegar varpað er ljósi á nauðsynlega tengingu skóga og landbúnaðar verður líka miklu augljósari sú ógn sem að matvælaöryggi heimsins steðjar vegna skógareyðingar. Í skýrslunni kemur fram að 73% skógareyðingar í heiminum megi rekja til útþenslu landbúnaðarlands þar sem skógur er ruddur undir akra og beitilönd.

Rannsóknin sem skýrslan greinir frá er liður í lokavinnunni við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þessum markmiðum er meðal annars ætlað að takast á við fátækt og hungur í heiminum. Skýrslan veitir líka mikilvæga innsýn í það hvernig Sameinuðu þjóðirnar geta lagt sitt á vogarnar í verkefninu Zero Hunger Challenge, þar sem markmiðið er að útrýma hungri í heiminum fyrir árið 2025.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson