Tvö kvæmi komu áberandi best undan síðasta vetri

Eftir óvenju vondan seinni part vetrar 2013-2014, sér mikið á furu og fjallaþin á Suðurlandi. Trén eru sviðin og ljót og einnig er talsvert um að tré hafi drepist. Frá þessu er sagt á vef skógarbænda. Böðvar Guðmundsson, áætlunarfulltrúi hjá Suðurlandsskógum, fór um skóga Þjórsárdals og skoðaði skemmdir á þin 10. júlí í sumar.

Fram kemur í greinargóðri skýrslu Böðvars að vind- og þurrkskaðar séu miklir og áberandi mestir á trjám sem standa á vindasömum stöðum. Þar sem nýtur algjörs skjóls séu skaðarnir minni, en oft einhverjir þó. Þannig sé það ekki ekki eingöngu vindur og útþurrkun sem veldur þessu; einhverjir aðrir þættir veðurfarsins ráði hér einnig einhverju um. Veturinn hafi ekki verið kaldur, en þó hafi blotar nánast engir verið í janúar og febrúar og svellalög áberandi mikil. Skemmdir á trjám hafi farið að koma fram í apríl.  

Niðurstaða Böðvars er sú að einungis tvö kvæmi komi vel út úr þessari skoðun, FÞ Þjórsárdalur 3220 og FÞ Kaupanger. Þau vaxi reyndar bæði á nokkuð skýldum stöðum en það geri líka sum hinna kvæmanna sem skoðuð voru. Mestu skemmdirnar séu í köntum og þar sem trén raga upp í norðanáttina en lægri tré í meira skjóli hafi almennt sloppið betur. Kaupanger-reiturinn segir Böðvar að sé efni í góðan fræreit. „Svona vetur grisjar út aumingjana, eftir ættu að standa tré sem eru betur aðlöguð veðurfari hér en þau sem drepist hafa,“ skrifar Böðvar í lok skýrslunnar sem lesa má með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Böðvar Guðmundsson