Rætt við bændurna á Ytra-Lóni á Langanesi í Bændablaðinu

Á Ytra-Lóni á Langanesi hafa margir kílómetrar af skjólbeltum verið ræktaðir og þrífast vel. Skógrækt er þar á fjörutíu hekturum og þokast þrátt fyrir áföll.

Rætt er við bændurna á Ytra-Lóni í Bændablaðinu sem kom út 15. desember, þau Sverri Möller og Mirjam Blekkenhorst. Þau reka sauðfjárbú með vel á fimmta hundrað fjár, fjárhundarækt og myndarlega ferðaþjónustu. Ytra-Lón er við ysta haf en það láta þau hjónin ekki stöðva sig í skógræktinni. Skjólbeltarækt er ekki síst mikilvæg úti á annesjum til að styðja við aðrar landbúnaðargreinar. Skjólið er dýrmætt bæði fyrir menn, skepnur og gróður.

Í viðtalinu segja þau Sverrir og Mirjam meðal annars:

Við hófum tilraunir í skjólbeltarækt 1998 og settum niður um 10 kílómetra af þrefaldri röð með brúnum alaskavíði, brekkuvíði, strandavíði, viðju, reyni alaskaösp og greni. Vöxturinn í skjólbeltunum er góður og alaskavíðirinn kominn vel á fjórða metra og lítið um afföll í þeim og greinilegt að það er hægt að rækta þau hér. Árið 2008 hófum við tilraunir í skógrækt á um 40 hektara svæði og höfum plantað um sex þúsund plöntum á ári síðan. Vöxturinn þar er fremur hægur og það hafa komið ár þar sem allar plönturnar sem við plöntuðum út hafa drepist. Ætli hæstu plönturnar séu ekki sirka hnéháar. Að megninu til er þetta lerki og birki og svo hef ég prófað nokkrar aðrar tegundir. Stafafura og greni virðast geta lifað hér og reynir líka en hann kelur mikið. Það sem hefur komið best út er birki og ég nota langmest af því í dag. Hér er einnig í gangi verkefni sem felst í endurheimt votlendis og þegar búið að moka ofan í um tólf kílómetra af skurðum.

Á Ytra-Lóni er mikill reki og nota þau Sverrir og Mirjam rekaviðinn m.a. til að kynda upp húsin á staðnum. Væntanlega tekur viður úr skóginum þeirra við því hlutverki er tímar líða.

Texti: Pétur Halldórsson