Þótt skjólbelti sé ekki viðameira og fjölbreyttara en þetta veitir það mikið skjól og getur gert gæf…
Þótt skjólbelti sé ekki viðameira og fjölbreyttara en þetta veitir það mikið skjól og getur gert gæfumuninn í stórviðrum eins og gengið hafa yfir landið að undanförnu. Skjámynd úr frétt Stöðvar 2

„Það er ótrúlegt að við skulum ekki gera meira af því að rækta tré,“ segir bóndinn á Skíðbakka í Austur-Landeyjum sem þakkar miklum trjágróðri og skjólbeltum á jörð sinni að ekki skyldi verða meira tjón þar í óveðrinu sem gekk yfir landið á föstudag. Aukið skóglendi hefur líka breytt veðurfari á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum áratugum og vafalaust víðar í þéttbýli hérlendis.

Sagt var frá því í fréttum Stöðvar tvö á laugardag að rúmlega 20 metra hár súrheysturn hefði stórskemmst í óveðrinu og sýndar voru myndir af því þegar turninn var í kjölfarið felldur með gröfu. Rætt var við Elvar Eyvindsson, bónda á Skíðbakka, sem er ekki í nokkrum vafa um að ræktun skóga og skjólbelta á jörðinni hafi komið í veg fyrir að verr færi í óveðrinu. „Ég held að það væri almannavarnarmál að hafa almennilegt skjól“, segir Elvar, í samtali við Magnús Hlyn Hreiðarsson fréttamann.

Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka, segir skógrækt vera almannavarnarmál. Skjáskot úr frétt Stöðvar 2Skógar og skjólbelti geta dregið mjög úr stórviðrum og bætt veðurfarsskilyrði til muna. Með minni vindkælingu batnar staðviðri og meðalhiti hækkar sem að sjálfsögðu kemur sér vel við hvers kyns ræktun, hvort sem það er á búpeningi eða nytjaplöntum.

En skjólið kemur mannfólkinu líka vel og þá er gaman að rifja upp skemmtilega umfjöllun í Landanum frá 2011 sem endurtekin var í Sjónvarpinu fyrir nokkrum vikum. Þar ræðir Leifur Hauksson við Harald Ólafsson veðurfræðing sem sýnir hvernig aukinn trjágróður á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað stormdögum verulega í borginni en enga slíka breytingu sé að sjá á Miðnesheiði þar sem enginn trjágróður hefur heldur vaxið upp.

Einnig er rætt við Þorberg Hjalta Jónsson, sérfræðing hjá Skógræktinni, sem bendir á að þegar tré séu komin í 5-7 metra hæð séu þau farin að grípa verulega í vindinn og áhrifin fari vaxandi upp í 12-15 metra hæð trjánna. Hann mælir með aukinni skógrækt í Esjunni, á Kjalarnesi og í Álfsnesi til að auka enn skjólið fyrir norðanáttinni í Reykjavík. Haraldur telur að ef skógur væri upp eftir Esjuhlíðum sé líklegt að þeir norðanstormar sem nú koma á Esjumelum og í Álfsnesi gætu næstum því heyrt sögunni til.

Vafalaust finnur fólk víða um land fyrir betra veðurfari í kjölfar skógræktar sem víða hefur verið stunduð í og við þéttbýli. Enn betur má þó gera, bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Þessi mynd úr umfjöllun Landans sýnir hvernig skógur í fjallshlíð lyftir meginstraumi vinds af fjalli upp þannig að áhrifa stórviðris gætir lítt niðri við jörð. Skjáskot úr Landanum

Text: Pétur Halldórsson