Ef skógrækt er gerð skipulagsskyld verður stjórnsýslan að vera í lagi

Í Morgublaðinu í dag, 13. mars, er fjallað um skógrækt og skipulag, aðalviðfangsefni fagráðstefnu skógræktar sem lýkur seinni partinn á Hótel Selfossi. Rætt er við Þröst Eysteinsson, sviðstjóra hjá Skógrækt ríkisins, sem segir ekki nóg fyrir sveitarfélög að gera skógrækt skipulagsskylda samkvæmt aðalskipulagi. Slíkri ákvörðun fylgi ábyrgð. Taki sveitarfélög sér skipulagsvald yfir skógrækt verði þau geta unnið faglega með umsóknir sem berast. Annað sé léleg stjórnsýsla.

Í blaðinu er líka rætt við Ragnar Frank Kristjánsson, forseta sveitarstjórnar í Borgarbyggð. Þar stunda um 50 jarðeigendur nytjaskógrækt undir hatti Vesturlandsskóga  og nú er skógrækt orðin skipulagsskyld samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins. Og Ragnar segir orðrétt:

„Að mínu mati vantar í skipulagsmál í dreifbýli að landsvæði séu enn betur flokkuð, svo allir tali sama tungumál. Gagnvart skógrækt eru reglur fátæklegar og þær mætti skýra. Ég hef heyrt gagnrýni skóræktarmanna á stefnumörkunina en ég held að það sé ekki mikill raunverulegur ágreiningur, nóg er af landi til skógræktar. Við byggjum á aðalskipulagi, sem unnið var með sérfræðingum og ég tel ekki að það sé of mikið að fara fram á að sá sem ætlar að hefja skógrækt á tugum hektara sendi inn erindi, sem þá er rætt á 1-2 fundum og síðan afgreitt. Stundum vilja menn fara í þægilegasta landið til að gróðursetja í, en ég held að full þörf sé á að skógræktarfólk fari að skipulagslögum eins og aðrir landnýtendur.

Nánar á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag