Sjálfsbjörg á Suðurlandi fékk í dag einnar milljónar króna styrk úr Pokasjóði til gerðar skógarstíga fyrir hreyfihamlaða í Haukadalsskógi. Auk þessa fékk Sjálfsbjörg nú á vordögum 350 þús. kr frá Ferðamálaráði til sama verkefnis. Á síðasta ári hófst verkefnið og voru lagðir um einn km af stígum í skógunum í Haukadal í Biskupstungum. Stígarnir eru gerðir þannig að hreyfihamlaðir í hjólastólum eigi auðvelt með að komast um stígana. Ekki tókst að ljúka við stígana á síðasta hausti vegna fjárskorts, en þeir fjármunir sem fengust nú verða nýttir til að ljúka verkinu í sumar. Standa vonir til að hægt verði að bjóða öllum í skógargöngu í Haukadal síðar í sumar líka þeim sem eru bundnir við hjólastól.