Ein af nýfundnu sáðplöntunum af degli í Stálpastaðaskógi. Ljósmynd: Jón Auðunn Bogason
Ein af nýfundnu sáðplöntunum af degli í Stálpastaðaskógi. Ljósmynd: Jón Auðunn Bogason

Á dögunum voru Jón Auðunn Bogason, skógarvörður á Vesturlandi, og Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi á ferð í Stálpastaðaskógi í Skorradal í þeim tilgangi að velja tré til að fella í sérverkefni. Þeir rákust á sjálfsáðar plöntur í skóginum sem þeim þótti öðruvísi en það greni sem er að sá sér þarna. Þegar betur var að gáð kom í ljós að þetta voru sáðplöntur af degli (Pseudotsuga menziesii). Þetta er að öllum líkindum fyrsti fundur slíkra plantna á Íslandi.

Plönturnar fundust í reit sem er blandaður af rauðgreni og sitkagreni; í nærliggjandi reit hafði degli frá Bresku-Kólumbíu verið plantað 1969 innan um sitkagreni frá Alaska 1961. Það eru um það bil 15-20 metrar frá gamla deglinu að þessum sáðplöntum.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum plöntum í framtíðinni.

Degli (Pseudotsuga menziesii, áður kallað döglingsviður eða douglasgreni) er ekki mikið notað í skógrækt í dag en bundnar eru vonir við að þessi tegund sé ein af framtíðartegundum í íslenskri skógrækt. Degli hefur sýnt góð þrif í Stálpastaðaskógi þar sem því hefur verið plantað í gisinn skóg. Degli skilar verðmætum við sem kallast Oregon pine.

Texti og myndir: Jón Auðunn Bogason og Valdimar Reynisson