Tóku til hendinni og fræddust um starfsemina

Hópur ungra sjálfboðaliða á vegum SEEDS-sjálfboðaliðasamtakanna dvaldi daglangt á Mógilsá í gær, mánudaginn þrettánda apríl. Ungmennin fengu fræðslu um starfsemi rannsóknastöðvarinnar og svo var haldið út í skóg.

Helsta verkefnið sem sjálfboðaliðarnir fengu að spreyta sig á var að rífa niður gamla girðingu sem stóð utan um fyrstu trjáreitina sem gróðursett var í á Mógilsá. Girðingin hafði löngu lokið hlutverki sínu og birkitré höfðu vaxið í gegnum hana á mörgum stöðum. Því var mikil handavinna að leysa ryðgaðan gaddavírinn og netin af trjástofnunum. Einnig var borið úr skóginum talsvert af birki sem hefur fallið til við umhirðu að undanförnu. Birkið verður bútað niður í eldivið. Einnig voru bornir stórir drumbar af grenitrjám sem brotnuðu í stormi fyrir nokkrum vikum. Hópurinn stóð sig mjög vel og þrátt fyrir blautt veður sýndu krakkarnir mikla gleði og vinnusemi þennan góða vordag.


Sjálfboðaliðarnir fræddust um starfsemina á Mógilsá undir leiðsögn Bjarka Þórs Kjartanssonar. Hér er hópurinn í gróðurhúsinu.

Opinberar stofnanir sem hafa úr takmörkuðum fjármunum að spila njóta góðs af vinnuframlagi erlendra sjálfboðaliða til viðhalds og uppbyggingar á jörðum ríkisins. Starfsfólk Mógilsár kann vel að meta slíkar heimsóknir og þakkar SEEDS-sjálfboðaliðunum kærlega fyrir vinnuframlag þeirra. Flest ungmennanna í hópnum eru frá Ungverjalandi en nokkur frá Bretlandi, auk eins skógfræðings frá Kanaríeyjum. Meðfylgjandi myndir tók einn úr hópnum, Orosz Márton, og þær segja meira en mörg orð um þessa góðu heimsókn.Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður segir frá verkefnum sem unnið er að á Mógilsá.


Alltaf eru næg verkefni í skóginum, til dæmis að bera út grisjunarefni.


Bornir voru út þungir trjábolir af grenitrjám sem létu undan ofviðri á nýliðnum vetri.


Bjarki Þór Kjartansson ásamt einum sjálfboðaliðanna.

Texti: Bjarki Þór Kjartansson og Pétur Halldórsson
Myndir: Orosz Márton